Til margs að vinna með samstarfi um grænan útflutning og fjárfestingar

17.04.18 | Fréttir
Vindmølle
Norðurlönd ættu að búa í haginn fyrir fyrirtæki sem hyggja á útflutning á grænum lausnum. Engin ástæða er til að gera lítið úr mætti norræna vörumerkisins. Löndunum er jafnframt akkur í því að vinna saman að grænni fjármálamörkuðum, segir Tine Sundtoft, fyrrum umhverfis- og loftslagsráðherra Noregs, í nýrri skýrslu.

Norðurlönd geta boðið upp á þróaðar lausnir til að mynda fyrir meðhöndlun vatns, úrgang, grænt borgarskipulag, samgöngur og orku. Með norrænu samstarfi getur verðmæti útflutnings á alþjóðlega markaði aukist enn meira.

„Staða okkar er sterk á sviði tækni og þekkingar, einnig við löggjafarstarf sem önnur ríki heims gætu nýtt sér í grænum umskiptum. Ef við komum auga á það sem við eigum sameiginlegt getum við stuðlað að lausn umhverfisvanda en jafnframt skapað norrænan virðisauka,“ segir Tine Sundtof. Í skýrslu sinni, Góðir grannar – Norðurlönd á tímum grænna umskipta kynnir hún tólf stefnumótandi tillögur um sóknarfæri í norrænu samstarfi um umhverfis- og loftslagsmál.

Öflugri í samkeppni ef þjóðirnar leggjast á eitt

Tine Sundtoft getur þess að norræn fyrirtæki finni nú þegar fyrir því að landsbundnir fyrirtækjaklasar megi sín lítils gagnvart sóknarfærum á hnattrænum mörkuðum. Auk þess geti löndin bætt hvert annað upp með færni og lausnum milli landa.

Í skýrslunni kemur fram að Norðurlönd búa nú þegar að mörgum lausnum sem þarf til að framfylgja Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna á sviði umhverfis- og loftslagsmála.

„Með sameiginlegri útrás geta löndin markaðssett og kynnt lausnir sínar í sameiginlegum heildarpakka. Fyrirtækin eru búin að uppgötva þann gífurlega kraft sem felst í norræna vörumerkinu,“ segir Tine Sundtoft. Í skýrslunni leggur hún til að umhverfis- og loftslagsráðherrarnir eigi samráð við atvinnuvegaráðherrana og fylgi eftir þeirri reynslu sem fengist hefur í samstarfi um útflutningsmál.

„Fjármögnun landsbundinna aðgerða á sviði grænna lausna getur haft örvandi áhrif á atvinnulífið og aukið arðbærni fyrirtækja. Það eykur lögmæti metnaðarfullrar stefnu landanna í umhverfis- og loftslagsmálum. Ef við eigum að halda forskoti á heimsmörkuðum til framtíðar verðum við að sjálfsögðu að huga jafnt og þétt að rannsóknum og þróun,“ segir Tine Sundtoft.

Skapa staðla fyrir grænni fjármálamarkaði

Mikil þörf er á því að beina fjárfestingum einkaaðila og hins opinbera til að efla græn umskipti. Til þess að Norðurlönd geti stutt við starf framkvæmdastjórnar ESB að grænni fjármálamörkuðum leggur Tine Sundtoft til að umhverfis- og loftslagsráðherrarnir kalli til leiðtogafundar með norrænum lykilaðilum á sviði þróunar grænni fjármálamarkaða:

„Þörf er á breiðu samstarfi til þess að koma sér saman um skilgreiningar og staðla fyrir grænar fjárfestingar og fjárfestingarafurðir. Við þurfum gagnsæ og sambærileg gögn um græna fjárfestingarkosti og áhættu fyrir umhverfið og andrúmsloftið.“

Skýrslan Góðir grannar – Norðurlönd á tímum grænna umskipta er unnin að beiðni norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfis- og loftslagsmál. Hún byggir á tæplega 120 samtölum sem Tine Sundtoft átti við stjórnmálafólk, embættisfólk, umhverfissamtök og fulltrúa atvinnulífs á Norðurlöndum og alþjóðlega.

Skýrslan í heild sinni

Tengiliður