Ungir norrænir karlar halda sig fjarri kjörklefanum

22.11.17 | Fréttir
Ane Maus Sandvig
Ungir Norðurlandabúar kjósa síður en aðrir aldurshópar. En helsta ástæðan fyrir fjarveru frá kjörstað virðist vera sú að umræddir karlar eru utanveltu í samfélaginu, með stutta skólagöngu að baki, lágar tekjur og af erlendum uppruna. Samfélagið verður að bregðast við til þess að koma í veg fyrir að tiltekinn hópur einstaklinga festist utan við lýðræðiskerfið. Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar sem unnin var að tilstilli norrænu barna- og ungmennanefndarinnar, NORDBUK.

Í norrænu löndunum fimm reynist kjörsókn vera mismunandi eftir aldurshópum. Í Danmörku og Svíþjóð er minnsti munurinn á kjörsókn eftir aldri. Mest ber á milli í Finnlandi en þar er almenn kjörsókn einnig dræmust.

Er þetta í samræmi við almenna þróun í Evrópu, en þar virðist mikil almenn kjörsókn draga úr mun á milli aldurshópa og öfugt. Börn foreldra sem eru ekki vanir að kjósa mæta heldur ekki á kjörstað.

Í skýrslunni „Youth, democracy and democratic exclusion in the Nordic countries“ fara höfundar yfir tölur og nýjar rannsóknir á lýðræðislegri þátttöku ungmenna á Norðurlöndum.

„Það er ekki þannig að kjörsókn sé dræm meðal allra ungmenna. Treg kjörsókn tengist klárlega erlendum uppruna ásamt félagslegum og efnahagslegum bakgrunni unga fólksins. Mun fleiri ungmenni en eldri einstaklinga er að finna í umræddum áhættuhópum,“ segir Ane Maus Sandvig, einn höfundur skýrslunnar.

Kjörsókn eykst sums staðar á Norðurlöndum

Ástandið er þó ekki alls staðar svart. Fólk mætir á kjörstað þegar það getur kosið í fyrsta sinn en síðan dofnar áhuginn. Alls staðar á Norðurlöndum er kjörsókn minnst meðal fólks á þrítugsaldri. Samt eru norræn ungmenni ekki síður pólitískt þenkjandi en eldri hópar. Þau mótmæla og taka virkan þátt í félagasamtökum.

Ekkert bendir til þess að kjörsókn fari almennt minnkandi á Norðurlöndum. Í Svíþjóð og Danmörku virðist kjörsókn hafa aukist hægt og þétt á undanförnum árum og í Noregi eykst pólitísk þátttaka fólks. Í Finnlandi og á Íslandi er myndin ekki eins skýr.

Ungir innflytjendur eða afkomendur innflytjenda kjósa síður en frumbyggjar, einkum ef þeir eiga rætur að rekja til Asíu, Afríku, Austur-Evrópu eða Suður-Ameríku, að Sri Lanka og Sómalíu undanskildum.

Í Danmörku er dræm kjörsókn hjá fyrstu og annarri kynslóð innflytjenda. Í Noregi á það einkum við um karla af erlendum uppruna en konur taka þátt í ýmsu pólitísku starfi.

Stutt skólaganga karla hefur áhrif

Menntunarstig, kyn og fjárhagur ráða miklu um kjörsókn og á það við um alla aldurshópa. Ástæður þess að ungir karlar kjósa síður en ungar konur eru lágt menntunarstig og að þeir búa oft einir.

„Við sjáum öflug kynslóðaskipti. Hjá eldri kynslóðum er það ennþá þannig að fleiri karlar kjósa en konur,“ segir Ane Maus Sandvig.

Skýrsluhöfundar draga þá ályktun að mikilvægt sé að grípa til pólitískra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að hópar fólks myndist utan við lýðræðiskerfið.

SMS áminning

Ýmsar leiðir hafa verið farnar til þess að auka kjörsókn ungs fólks á Norðurlöndum. Þar má nefna skuggakosningar eða skólakosningar til að þjálfa börn og ungmenni í að ræða stjórnmál og taka afstöðu, upplýsingaherferðir og SMS-skilaboð til unga fólksins á kjördegi. Skýrsluhöfundar komust að því að það getur reynst erfitt að ná til þeirra sem líklegastir eru til að hunsa kosningar.

„Mikilvægt er að grípa til aðgerða sem rannsóknir sýna að bera árangur. Við sjáum að skuggakosningar fara sjaldnar fram í verkmenntaskólum og er það ærið áhyggjuefni,“ segir Ane Maus Sandvig.

Norska æskulýðssambandið (LNU) vann skýrsluna að beiðni NORDBUK, norrænu barna- og ungmennanefndarinnar.

  • Tengill á skýrsluna kemur innan skamms: Youth, democracy and democratic exclusion in the Nordic countries