„Við verðum að skapa árangur sem fólk finnur fyrir í daglegu lífi“

31.10.17 | Fréttir
Nordiskt toppmöte
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/Norden.org
Norðurlöndin eiga að vera best samþætta svæði heims að mati forsætisráðherranna fimm. Hvað felst nákvæmlega í því? Styðja þeir til dæmis tillöguna um norrænt rafrænt skilríki? „Já!“ svaraði finnski forsætisráðherrann, Juha Sipilä, skýrt og greinilega á leiðtogafundi við upphaf þings Norðurlandaráðs.

Tvær klukkustundir með leiðtogum norrænu landanna átta. Á leiðtogafundinum gefst norrænum þingmönnum einstakt tækifæri til að fá svör forsætisráðherranna við pólitískum spurningum á norrænni dagskrá.

Traust og stjórnsýsluhindranir

Umfjöllunarefni leiðtogafundarins að þessu sinni var traust og stjórnsýsluhindranir – lykilatriði í sýn forsætisráðherranna um Norðurlönd sem best samþætta svæði í heimi.

Umræðurnar gáfu þingmönnum og áheyrendum kost á að átta sig á hvað felst í umræddri framtíðarsýn. Forsætisráðherrarnir voru spurðir um lagningu járnbrauta, vinnumálastefnu, aðlögun flóttafólks og varnarmálasamstarf í framtíðinni.

Það var alveg ljóst að forsætisráðherrarnir vilja stefna hærra þrátt fyrir að leiðin að settu markmiði sé engan veginn skýr.

 „Við verðum að skapa árangur sem fólk finnur fyrir í daglegu lífi. ESB hefur unnið mikilvægt starf til að greiða fyrir hreyfanleika en nú eru umbrotatímar í sambandinu og þá er mikilvægt að Norðurlandasamstarfið sé skýrt,“ sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.

Norðurlönd efst í ESB

Hún spáði því að norrænar leiðir í loftslags- og orkumálum yrðu bráðlega evrópskar leiðir. Þá myndi norrænt samstarf um stafræna væðingu gefa tóninn í Evrópusamstarfinu.

Norræna ráðherranefndin kom nýlega á fót ráðherranefnd um stafræna væðingu sem á árunum frá 2018 til 2020 á að þróa hinn stafræna innri markað á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum og er það gott dæmi um hvernig norræn stjórnvöld vilja vinna að sögn Karen Ellemann, samstarfsráðherra Danmerkur.

„Við verðum á verði og hugsa norrænt þegar við sköpum stafrænar lausnir til þess að koma í veg fyrir að nýjar stjórnsýsluhindranir myndist. Samþætting á Norðurlöndum er langt á veg komin. En við verðum að ganga enn lengra til að auka hreyfanleika og samspil á Norðurlöndum enn frekar,“ sagði Karen Ellemann en hún sat leiðtogafundinn fyrir hönd forsætisráðherrans.

Norræn rafræn skilríki

Fyrr um daginn höfðu samstarfsráðherrar Norðurlanda veitt Stjórnsýsluhindranaráði aukið umboð. Og nú er unnið að úttekt á sóknarfærum í samstarfi um löggjafarstarf í þeim tilgangi að koma í veg fyrir nýjar stjórnsýsluhindranir.

Anna-Maja Henriksson úr flokkahópi miðjumanna í Norðurlandaráði spurði forsætisráðherrana hvort þeir hygðust styðja tillöguna um sameiginlegt norrænt rafrænt skilríki.

„Svarið er já! Við veitum þessari þróun að sjálfsögðu brautargengi en mismunandi vinna er hafin í löndunum,“ svaraði Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands.

Norrænu löndin völdu ólíkar leiðir gagnvart ESB og NATO og sýnis um samþættingu á Norðurlöndum mun varla hnika við því.

„Það er margt ólíkt með löndunum. En það sem hefur borið uppi norrænt samstarf fram að þessu er allt það sem sameinar okkur,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, samstarfsráðherra Íslands.  

Öflug rödd á alþjóðavettvangi

Sýnin um Norðurlönd sem best samþætta svæði heims snýst fyrst og fremst um að skapa störf og hagvöxt fyrir Norðurlandabúa en í henni felst einnig alþjóðleg vídd.

„Á tímum hnattrænna áskorana höfum við, norrænu ríkin, æ mikilvægara hlutverki að gegna hvort heldur það snýr að öryggismálum heima fyrir, friðarumleitunum á heimsvísu eða umbreytinguna í átt að sjálfbærum heimi,“ sagði Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar:

„Rödd Norðurlanda verður að vera öflug á alþjóðavettvangi. Því framlag okkar skiptir máli.“

Tengiliður