Bergsveinn Birgisson

Bergsveinn Birgisson
Photographer
Helge Skodvin
Bergsveinn Birgisson: Lifandilífslækur. Skáldsaga, Bjartur, 2018. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020.

Rökstuðningur:

Lifandilífslækur (kom út á norsku undir heitinu Reisen til livsvannet hjá forlaginu Vigmostad & Bjørke, þýðandi Oskar Vistdal) fjallar um baráttu fátækrar þjóðar fyrir réttinum til eigin skynjunar og lífsskoðunar; um yfirgang valdhafa, nýlendustefnu, arðrán og vanhelgun náttúrunnar. Verkið er sögulegur skáldskapur um ögurstund í lífi íslenskrar þjóðar en jafnframt um þá örlagatíma heillar siðmenningar sem heimsbyggðin horfist nú í augu við. Bergsveinn Birgisson staðsetur verk sitt á landamærum tveggja heima. Raunsæi og vísindahyggja 18. aldar stendur andspænis náttúrutrú og dulúð. Ekki verður með góðu móti litið framhjá tilvísun verksins til nútímans þar sem hættulegar hagsmunakreddur ógna mennsku og tilfinningagreind. 

Með einstakri stílgáfu býður Bergsveinn lesanda að ferðast með sér aftur í aldir með upplýsingarmanninum Markúsi Árelíusi. Harðbýlt og hrjóstrugt Ísland 18. aldar, illa leikið eftir gríðarlegar náttúruhamfarir, er ógleymanlegt sögusvið sem höfundur miðlar af miklu næmi. Markús Árelíus er sendur til hins vindbarða Íslands til þess að vinna skýrslu fyrir yfirboðara sína hjá dönskum stjórnvöldum. Þeir íhuga að flytja allt nýtilegt vinnuafl til starfa í Danmörku og Noregi. Vopnaður mælitækjum og upptendraðri vitund upplýsingarmannsins leggur Markús Árelíus leið sína norður á Strandir, en náttúran neitar að lúta lögmálum hans og leikur mælitækin grátt.

Eins og fyrri verk Bergsveins sýna hefur hann meistaraleg tök á hinni sögulegu skáldsögu. Við bætist yfirgripsmikil þekking hans á söguefni og sögusviði. Það er makalaust að sagan Lifandilífslækur skuli í senn geta verið svo trú tíma sínum og rúmi í norrænni sögu en jafnframt svo beinskeytt í tilvísun sinni til nútímans.

Bergsveinn hefur áður sent frá sér ljóðabækur, skáldsögur og fræðirit en fyrsta ljóðabók hans kom út árið 1992. Skáldsaga hans Svar við bréfi Helgu (væntanleg í sænskri þýðingu Johns Swedenmark hjá Bazar Förlag) var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2012.