Carbon Action – Finnland

Carbon Actionn
Photographer
norden.org
Umbreyting sem byggð er á rannsóknum til þess að auka sjálfbærni matvælaframleiðslu og landbúnaðar.

Carbon Action er tilnefnt til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Áætlað er að 1.500-2.400 gígatonn af kolefnum séu bundin í efsta lagi jarðvegsins sem nær niður á eins til tveggja metra dýpi. Það er um það bil þrisvar sinnum meira en samanlagt magn kolefna í öllu andrúmsloftinu. Þetta er einnig um 300–500 sinnum það magn kolefnis sem losað er af völdum jarðefnaeldsneyta ár hvert. Ekki þarf nema litla breytingu á kolefnisbindingu jarðar til þess að breyta verulega kolefnismagni andrúmsloftsins. Til þess að snúa við þróuninni hnattrænt og einnig á Norðurlöndum og skapa skilyrði til aukinnar kolefnisbindingar í jörðu þurfum við að skilja hvernig kolefni haga sér í jörðu. Í Carbon Action-samstarfsnetinu, sem stofnað var af Baltic Sea Action Group, koma bændur, ráðgjafar, vísindafólk, fyrirtæki og valdhafar saman í þeirri vinnu. Í hundrað kolefnisgeymslum Carbon Action-verkefnisins eru prófaðar aðferðir til sjálfbærrar ræktunar og reynslunni miðlað til samstarfsnetsins. Þannig er hægt að vinna kolefni og matvæli samtímis. Verkefnið sameinar hagaðila og þar eru stundaðar vísindarannsóknir af miklum gæðum, auk þess hefur myndast umfangsmikið rannsóknarsamstarf á sviði sjálfbærni gegnum verkefnið.

Mikilvægt markmið með rannsóknum Carbon Action er að búa til vísindalega viðurkennda aðferð til að votta kolefnisbindingu. Forritið Pelto-Observotario var þróað til að sýna áhrif kolefnisbindingar. Forritið fylgist með kolefnisbindingu 20 verkefna Carbon Action og prófunarsvæða í rauntíma. Niðurstöður úr vottunarkerfinu er hægt að nota til grundvallar við ákvarðanatöku og þróun á þjónustu. Carbon Action-verkefnið skiptir því norrænt umhverfisstarf miklu máli og þess vegna er Carbon Action tilnefnt til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Um þema ársins: Sjálfbær matvælakerfi

Þegar matvælaframleiðsla er sjálfbær eru matvælin eins og framast er unnt framleidd staðbundið og notaðar til þess umhverfislega sjálfbærar aðferðir. Á sviði landbúnaðar er fyrst og fremst lögð áhersla á endurnýjanlega næringu úr jurtaríkinu og umhverfisvænar landbúnaðaraðferðir sem taka tillit til losunar gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingar, líffræðilegrar fjölbreytni og góðrar nýtingar vatnsauðlindarinnar. Í dýrahaldi og fiskeldi er tekin umhverfisleg ábyrgð og gildi dýraverndunar tekin mjög hátíðlega. Náttúruauðlindir sem notaðar eru til matar, svo sem villtur fiskur og aðrar náttúruafurðir, eru skynsamlega nýttar.

Þegar hráefni eru ræktuð til matar er næringargildið látið halda sér eins vel og kostur er. Í matvælaiðnaðinum á sér ekki stað auðlindasóun, vörunum er pakkað á orkuvænan hátt og umhverfisáhrif dreifingarinnar eru eins lítil og mögulegt er. Fyrirtæki og verslanir bjóða viðskiptavinum sínum aðeins sjálfbæra valkosti og eru auk þess með eigin ráðstafanir til þess að draga úr matarsóun. Matur neytenda byggist á umhverfislega sjálfbærum valkostum, til dæmis grænmetisfæða sem löguð er að árstíðum. Við borðum eins margar hitaeiningar og við þurfum, enginn matur fer til spillis og lífrænn úrgangur er endurunninn.