Christina Hesselholdt

Christina Hesselholdt
Ljósmyndari
Jakob Dall
Vivian. Skáldsaga, Rosinante & Co, 2016.

Síðan frumraun Christinu Hesselholdt, Køkkenet, gravkammeret & landskabet, kom út árið 1981 hefur hún fest sig í sessi á meðal helstu höfunda tilraunakennds prósa á Norðurlöndum. Vivian er ævisöguleg skáldsaga um bandaríska götuljósmyndarann Vivian Maier (1926–2009), sem var óþekkt í lifanda lífi og vann fyrir sér sem barnfóstra hjá efnafjölskyldum. Að Maier látinni fundust hjá henni um 150 þúsund ljósmyndir sem hún hafði tekið af fólki og stöðum í New York og Chicago yfir 40 ára skeið. Í dag teljast þessar myndir til þýðingarmestu verka ljósmyndalistarinnar á 20. öld. Þó að ævisaga Maier kallist á við alls kyns sögur af óþekktum listasnillingum er ekkert rómantískt að finna í framsetningu Hesselholdt á henni. Hér er þvert á móti lýsing á manneskju sem annars vegar er ströng, ósveigjanleg, ókynhneigð og lokuð, en hefur hins vegar sterka réttlætiskennd og fegurðarskyn og ríka samúð með þeim sem minna mega sín. Í Vivian er dregin upp persóna sem sýnir sífellt á sér nýjar hliðar og býr yfir kjarna sem fangar og heillar lesandann svo um munar.


Kynnin af Vivian verða meðal annars að magnaðri lestrarupplifun vegna frásagnarmátans, en sagan segir frá ævi sem hefst á brotinni æsku í innflytjendafjölskyldu og lýkur í fátækt og einsemd. Viviansamanstendur af breiðu rófi ólíkra radda sem tilheyra sögumanninum, Vivian sjálfri og fjölda persóna í nánasta umhverfi hennar. Þar má nefna stúlkuna Ellen, sem Vivian vinnur við að gæta, foreldra Ellenar, móður Vivian og fleiri. Sögumaðurinn er iðinn og dálítið frakkur og útskýrir stöðugt fyrir lesandanum samhengi atburðarásarinnar og hinar sögulegu kringumstæður hennar – ekki beint sú manngerð sem virðist sérlega aðlaðandi að halla sér að. Verkið hefur enga eina, áreiðanlega rödd sem setur fram staðhæfingar eða svör, heldur pólýfóníu margra, jafngildra radda, sem skapar einstaka möguleika til upplifunar og vangaveltna. Hesselholdt er auk þess afar fær stílisti. Bókin er full af sérstökum, fallegum og frumlegum setningum sem örva ímyndunarafl lesandans í fjölda margslunginna persónulýsinga. Tveimur aukapersónum bókarinnar er til dæmis lýst svo: „Silkipappírinn gerir hana í senn bitra og káta“, og „Nú lætur hún túlípanana barna sig, nú ríður hún á rósabaki.“ Þetta hefur enginn skrifað áður.


Vivian sýnir okkur manneskju sem hefur gengið í gegnum meira en flestir, átt erfiða æsku markaða af ofbeldi, misnotkun og geðsjúkdómum og varið fullorðinsárunum í tilbreytingarleysi og einangrun, en býr einnig yfir hlýju, fegurð og sérstæði í listsköpun sinni og innra lífi, eins og ljósmyndir hennar bera vott um. Hér er á ferð klofningur í draumaheim og veruleika sem er flestum kunnugur, en sem Christina Hesselholdt ljær alveg sérstaka áherslu í heillandi og frumlegri skáldsögu um mikla listakonu.