Hans Petter Laberg

Ingenting blir som før
Hans Petter Laberg: Ingenting blir som før. Unglingaskáldsaga, Cappelen Damm, 2017

Ingenting blir som før („Ekkert verður eins og áður“, óþýdd) er frábrugðin öðrum norskum skáldsögum fyrir unglinga. Uppbyggingin fylgir sígildri skáldsögu þar sem samfélagsleg unglingaskáldsaga 8. áratugar síðustu aldar er endurnýjuð með áhuga nútímans á tilvistarlegum spurningum.

Skáldsagan fjallar um Markus, ósköp venjulegan fimmtán ára strák sem býr heima hjá foreldrum sínum og er í skóla. Stóri bróðir hans, Victor, er fluttur að heiman og vinnur fyrir sér með því að selja fíkniefni. Markus elskar og dáir stóra bróður sinn og saknar hans því þeir sjást sjaldan, meðal annars vegna þess að foreldrar þeirra vilja halda þeim aðskildum.

Atburðarásin hefst fyrir hádegi á föstudegi. Markus er í skólanum þegar Torstein kennari deyr fyrir framan bekkinn. Þá rifjast upp minning fyrir Markusi sem hefur samband við bróður sinn og fer með honum að afhenda fíkniefni á lengri vegferð hús úr húsi. Á leiðinni er vinur Victors stunginn með hníf og annar særður, honum rænt eða hann drepinn. Heima sitja mamma og pabbi og naga sig í handarbökin út af Victori. Hvar gerðu þau mistök?

Skáldsagan byggist á andstæðum. Þrátt fyrir að ytri atburðarásin eigi sér stað skuggamegin í samfélaginu eru margar bjartar hliðar. Kærleikur bræðranna er ósagður en sterkur. Þeir sýna hvor öðrum umhyggju þótt lítið beri á. Markus kynnist Söru og verður skotinn í henni. Hann á líka góða vini sem styðja hann og hjálpa honum gegnum erfiðleikana. Óumflýjanleiki tímans er grunnþema sögunnar, það sem gert er verður ekki tekið aftur og ekkert verður sem áður. Allar persónurnar taka breytingum.

Höfundur er leikskáld og uppbygging sögunnar er þjöppuð. Atburðarásin er samhangandi og án hliðarstefa. Allt gerist á stuttum tíma (þremur sólarhringum). Rödd sögumanns er lágvær, atburðarásin er í forgrunni og drifin áfram af atburðum úr fortíðinni. Margt á milli línanna vekur áhuga lesenda og fær þá til að geta sér til um framhaldið. Skáldsagan er spennandi eins og góð unglingaskáldsaga á að vera. Persónulýsingar eru blæbrigðaríkar, hver persóna hefur sín sérkenni og orðaskiptin eru sannfærandi.

Skáldsögunni lýkur á bílastæði síðdegis á sunnudegi. Victor ekur burt. Marcus verður eftir. Sara kemur á móti honum. „Á morgun á allur skólinn eftir að tala um Torstein. Það er eins og það hafi gerst fyrir löngu síðan.“

Hans Petter Laberg hefur gefið út tíu skáldsögur fyrir unglinga og eina fyrir börn. Hann hlaut Cappelen-verðlaunin 1996 fyrir bestu ástarsöguna fyrir unglinga. Tvö leikrit hans hafa verið sett á svið. Daglega starfar hann sem bókasafnsfræðingur.