Johan Jönson

Johan Jönson
Photographer
Johan Jönson
Johan Jönson: Marginalia/Xterminalia. Skáldsaga, Albert Bonniers förlag, 2019. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020.

Rökstuðningur:

Johan Jönson steig fyrst fram á ritvöllinn árið 1992 og hefur síðan gefið út mikinn fjölda ljóðabóka. Hann sló í gegn svo um munaði með hinni viðamiklu ljóðabók Efter arbetsschema árið 2008. Höfundarverk Jönsons er meitlað að formi og innihaldi. Hann fjallar með eftirtektarverðum hætti um mannlega tilveru á tímum síðkapítalismans; mikil reiði blandast mikilli sorg og umhyggju. Að lesa Johan Jönson er að dveljast í djöfullegum myrkraherbergjum þar sem öll mörk hafa máðst út. 

Í ljóðum Johans Jönson er ávallt mikið að veði.

Það á ekki síst við um Marginalia/Xterminalia (ekki þýddar á íslensku), tvær nátengdar bækur sem komu út samtímis. Marginalia inniheldur ljóð en Xterminalia samklippt textabrot.

Jönson fær sorgina til að syngja. Í samanburði við hinn viðamikla ljóðasveig sem lauk með útgáfu dit. dit. hään árið 2016 minnir Marginalia þó frekar á útöndun. Hér er ritstörfunum lýst út frá gleymsku og iðju ljóðskáldsins líkt við viðvarandi minnisleysi. Bókin samanstendur af einu löngu ljóði í stuttum línum sem hefur verið skipað út að vinstri og hægri jöðrum hverrar opnu. Miðja hverrar opnu stendur auð. Allan tímann er ljóðmælandi meðvitaður um eigin dauðleika og eimhver ógn vofir ávallt yfir. Einnig má greina stöðuga hreyfingu. Hreyfingu sem er að molna í sundur og á niðurleið. Regn fellur, snjór fellur, lauf falla. Blóð, sviti og tár renna. En af og til glittir líka í ljósið, á stundum þegar „morgundögg stígur /---/ úr hinni stóru, þöglu gröf jarðarinnar“. Og ekki má gleyma peningunum. Þeir taka á sig mynd þráhyggjukenndrar áminningar sem brýtur upp auðþekkjanlegt brotaflæðið í ljóðarödd Jönsons og hundeltir hverja síðuna á fætur annarri í skáletri, hvort sem orðalagið er „Ég á enga peninga“, „Ég veit ekki hvert peningarnir fóru“ eða „Við verðum að eiga peninga í lok mánaðarins“. Allt lýtur hinu efnahagslega stigveldi. 

Xterminalia, með sinn marglaga titil sem minnir bæði á Terminal eftir Lars Norén og kvikmyndina vinsælu Terminator, er langt eintal úr hugskoti ljóðmælanda, þrungið heilabrotum, þar sem Jönson veltir ýmsu fyrir sér, giskar, þráir og rökræðir. Hann skrifar um hatur, ást og losta í samhengi við kynlíf, ofbeldi, stétt, ritstörf og lestur. 

Hinn áleitni texti Johans Jönson er stöðugum breytingum undirorpinn, að lesa hann er að skoða samfélagið og nærumhverfið, en einnig er lesandinn sjálfur tilneyddur til að taka sér stöðu innan um sorann og myrkrið, verða eitt með ljóðinu. Með ljóðum sínum dregur Jönson upp magnaðar myndir af lífinu og manneskjunni í öllu sínu brothætta ástandi, og í því býr fegurð. 

Johan Jönson (f. 1966) telst til fremstu ljóðskálda Svía. Hann gat sér fyrst gott orð með ljóðabókinni Efter arbetsschema árið 2008. Næsta bók, Livdikt (2010), hlaut tilnefningu til August-verðlaunanna og var fylgt eftir með þremur ljóðabókum sem báru stefnur eða áttir í titlum sínum: med.bort.in. (2012), mot.vidare.mot. (2014) og dit.dit.hään. 2015.