Johan Jönson

Johan Jönson

Johan Jönson

Photographer
Johan Jönson
Johan Jönson: Nollamorfa. Ljóðabók, Albert Bonniers förlag, 2023. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

 

Rökstuðningur: 

Í Nollamorfa, sem er tuttugasta og fyrsta og jafnframt nýjasta ljóðabók Johans Jönson, hittum við fyrir mann sem hefur verið á eftirlaunum í nokkur ár eftir að hafa unnið sem húsvörður. Nú er hann kominn með Parkisonssjúkdóminn, er orðinn heilabilaður og við fylgjumst með síðustu dögum hans á elliheimili. Ruglingslegar minningar hans, hugsanir og hughrif læða sér niður eftir síðunum miðjum, oft brotin niður í stök hljóð og atkvæði. Hægra megin á síðunni er svo skáletraður texti þar sem umönnunaraðilar og aðstandendur gera klaufalegar tilraunir til að ná til hins veika manns. Þessi víxlsöngur heldur áfram allt til loka, þar til dauðinn knýr dyra og þangað til Núllið setur punkt fyrir aftan þessa niðurtalningu í höfundarverki Jönsons og hverfur aftur til þeirrar hugmyndar hans að „ljóðið [sé] núll“

 

Jönson lætur tungumál hins heilabilaða einstaklings og sundurlausar minningar hans bergmála í textanum og tekst að dýpka mörg af sínum algengustu þemum, svo sem firringu sjálfsins innan tungumálsins, á áráttukenndan hátt svo að minnir á dauðahvöt. En hann bregður heilabiluninni líka upp sem hliðstæðu við þá stétt sem vinnur líkamlega vinnu, og það hvernig hana skortir tungumál til að tala eigin máli. Í þverrandi tungumáli tengdaföðurins leynist einnig ljóðrænn sannleikur og eiginleikar sem hægt er að nýta: 

 

Hvað heita börnin / mín / hvaða börn á ég // Á é / á ég þessi börn // Er það é / ég s / hv // Er þþ // E / Hv // Hva // Ahh / Hver / hver voru þau // hver. 

 

Í hinni margradda ljóðlist Jönsons er ekkert of fallegt eða ljótt til að verða að yrkisefni. Mettaðri tjáningu á kyni er blandað við fallegar lýsingar á landslagi og æsku, krefjandi kenningar og hamslausar árásir á öfgakennda einstaklingshyggju og kapítalisma samtímans.  

 

Mitt í alvarlegum og þungum lýsingum á samtímanum glittir líka í kímni. Svona gæti tilvitnun í áletrun á legsteini mannsins, gerða að hans eigin ósk, hljómað:  

 

Í LIFANDA LÍFI VAR HANN FJÖRUGUR LAX  

EN NÚ ER HANN GRAFINNGRAVAD 

 

Í Nollamorfa fæst Jönson með aðdáunarverðum hætti við það sem farið er að einkenna ljóðlist hans: listræna blöndun mismunandi þátta sem stillt er upp hverjum á móti öðrum þannig að tengingarnar á milli þeirra skapi merkingu. Skipt er á milli stíla, leturgerða, leturbrigða og takta, sem stuðlar að því að formið er stöðugt lifandi og breytilegt og leyfir augunum að flögra á milli mismunandi staðhæfinga og forma. Þannig býðst lesandanum líka að taka þátt í sköpuninni.  

 

Bókin er af stærð A3 og fær því að taka pláss. Þetta er áhugavert val á tímum þegar rafbókin reynir stöðugt að velta áþreifanlegum bókum úr sessi. Annað sjónarmið er að bókin fær að taka pláss meðan höfundurinn fellur í skuggann, sem ögrar líka þráhyggju samtímans gagnvart höfundinum og sjálfi hans. 

 

Johan Jönson (f. 1966) gat sér fyrst gott orð með ljóðabókinni Efter arbetsschema árið 2008.Næsta bók, Livdikt (2010), hlaut tilnefningu til August-verðlaunanna og var fylgt eftir með þremur ljóðabókum sem allar báru stefnur eða áttir í titlum sínum: med.bort.in. (2012), mot.vidare.mot.  (2014) og dit.dit.hään. (2015). Hann var tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í fyrsta sinn árið 2009 fyrir Efter arbetsschema og aftur árið 2019 fyrir Marginalia/Xterminalia. Með Nollamorfa sýnir hann enn og aftur að penni hans er einn sá beittasti í Svíþjóð.