Monika Fagerholm

Monika Fagerholm
Photographer
Niklas Sandstrom
Monika Fagerholm: Vem dödade bambi? Skáldsaga, Förlaget M, 2019. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020.

Rökstuðningur:

Monika Fagerholm (fædd 1961) steig fyrst fram sem rithöfundur með smásagnasafninu Sham árið 1987. Sjö árum síðar sló hún í gegn með skáldsögunni Underbara kvinnor vid vatten og hefur síðan gefið út fjölda skáldsagna sem vakið hafa athygli. Diva kom út árið 1998 og Den amerikanska flickan 2005, en fyrir hana hlaut höfundurinn August-verðlaunin sama ár. Lola uppochner kom út 2012 og 2016 hlaut Fagerholm norrænu bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar.

Vem dödade bambi? („Hver drap bamba?“, ekki þýdd á íslensku) er sjöunda skáldsaga Moniku Fagerholm. Hún er þéttari að forminu til en fyrri skáldsögur höfundar og fjallar um hópnauðgun, framda af ungum mönnum úr að því er virðist vel stæðum fjölskyldum í Villastan, litlu auðugu bæjarfélagi skammt frá Helsingfors. Sjálf nauðgunin er ekki meginefni frásagnarinnar, heldur atburðirnir fyrir og eftir hana. Skáldsagan er sem þéttriðið net frásagna, minninga, samtala og menningarbundinna vísana. Persónugalleríið er fjölbreytt.

Helsti gerandi ofbeldisins er Nathan, einkasonur Annelise og Albinusar Häggert sem gegna bæði virtum stöðum í samfélaginu. Eftir nauðgunina brotnar fjölskyldan saman. Þolandinn, Sascha Anckar, kemur af upptökuheimilinu Grawellska og deyr nokkrum árum eftir árásina eftir að hafa tekið of stóran skammt vímuefna í Bandaríkjunum. Nauðgunin var hefnd Nathans fyrir að hún hætti með honum. Sascha vill ekki fara með málið fyrir dómstóla og er þögul sem gröfin, en það er dæmigert fyrir Fagerholm að myndavél stúlkunnar rýfur þögn hennar með því að geyma myndir sem teknar voru af nauðguninni.

Einhvers staðar í þessum vef af beinskeyttum talmálslegum línum, síendurteknum stefjum, vísunum í dægurmenningu, ókláruðum setningum, áherslum, svigum og tilvitnunum leynist hörkulegur sannleikur sem hefur áhrif á persónurnar, hvernig sem þær reyna að verjast honum:

 

Svo niðurbrotin að það var vont.

Er vont.

En sannleikurinn … sannleikurinn … í formi frásagnar

Forsenda sannrar frásagnar er einhvers konar kítti sem heldur öllu saman – öllu þessu brothætta, öllum brotunum –

 

Sá sem myndaði nauðgunina og gengst við sannleikanum er æskuvinur Nathans, Gusten Grippe. Það má líta á Gusten sem aðalpersónu bókarinnar. Ólíkt hinum gerendunum þremur finnur hann til sektar. Einn af styrkleikum bókarinnar felst í innri baráttu Gustens þegar hann reynir að lifa með ofbeldinu sem hann tók þátt í en var sýknaður af. Að lokinni dvöl á geðsjúkrahúsi finnur hann hina ungu og saklausu ást og gerir hikandi tilraunir til að skrifa og leika. Í nútíð skáldsögunnar lifir hann þó einmanalegu lífi sem „verðbréfasalinn frá helvíti“.

Á stefnulausu skokki sínu um Villastan rekst Gusten ekki aðeins á Nathan og æskuástina Emmy heldur einnig gamla bekkjarfélagann Cosmo. Cosmo tók ekki þátt í nauðguninni en er nú að gera kvikmynd um hana undir yfirskriftinni „Hver drap bamba?“ Sem „athafnamaður af lífi og sál“ hættir Cosmo þó snarlega við þær fyrirætlanir þegar hinn auðugi faðir Nathans stígur fram sem eigandi kvikmyndafyrirtækisins í beittri háðsádeilusenu. Í staðinn hlýtur framgang hin hraða og dystópíska ævintýramynd „On the Other Side of the Rainbow“.   

Skrif Fagerholm eru knúin áfram af reiði í garð feðraveldissamfélags nýfrjálshyggjunnar, yfirborðsmennsku þess, sjálfhverfu, sjálfsupphafningar og skorts á samskiptum og hlýju. Athygli hennar beinist að þeim samfélagslegu og andlegu formgerðum sem leyfðu nauðguninni að eiga sér stað, einkum og sér í lagi viðleitninni til að afneita þýðingu hennar. Eins og Annelise, móðir Nathans, segir: „Nú ætlum við að snúa við blaði og ef við höldum því áfram höfum við einn góðan veðurdag snúið við svo mörgum blöðum að ekkert af þessu hefur raunverulega gerst.“

Ósködduðum hliðum persónanna, jafnvel gerendanna fjögurra, er líka lýst í svipmyndum af ást, vináttu og leit að einhverju ósviknu:

… stúlkan, unga konan, sem var hún – án frásagnar, engin myndavél sem beindist að henni, bara konan.

Einhverju sem var til staðar áður en sakleysinginn dó og sem hægt er að snúa aftur til, trúa á og sækja kraft í. Gefa rými í núinu – og í frásögninni. Vem dödade bambi? minnir á ákaft og lipurt tónverk sem leikur á hugsanir, tilfinningar og hugrenningatengsl lesandans og tekst þrátt fyrir sinn æðisgengna ofsa að veita von um að annar og fegurri heimur sé mögulegur.