Oddfríður Marni Rasmussen

Oddfríður Marni Rasmussen
Photographer
Oddfríður Marni Rasmussen
Oddfríður Marni Rasmussen: Ikki fyrr enn tá. Skáldsaga, Sprotin, 2019. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020.

Rökstuðningur:

Það er ekkert sérstaklega ljóðrænt við heilaæxli. Hinar myndrænu lýsingar í skáldsögu Oddfríðs Marni Rasmussen um Janus, sem horfir upp á vonlausa baráttu konu sinnar við sjúkdóm, eru hráar en búa jafnframt yfir óvæntum þokka. Tungumálið á að varðveita minningarnar um líf sem var. Skáldsagan fjallar um ást, örvilnun, styrk og vanmátt og kannski umfram allt um það að missa stjórnina. Æxlið brýst inn í meðvitund Elsu eins og dimmur hnefi. Brátt eru aðeins fáein orð og dálítið rím eftir af samtölum hjónanna. Sjúkdómurinn er ekki fegraður en Elsa vill takast á við árásir krabbameinsins með sínum hætti. Því er lýst sem baráttu, einnig gegn magnleysi manns hennar. Lesandinn upplifir ekki aðeins lýsingu á banvænum sjúkdómi, heldur vægðarlausa hnignun. Elsa tapar smám saman hreyfigetunni og hallar sér með ennið upp að gluggarúðunni, eins og hún vilji „kasta sér út yfir bæinn“, meðan eiginmaðurinn Janus heldur sér á floti og fer fyrst að brotna niður og sökkva sér í sjálfsvorkunn eftir dauða hennar.

Skáldsagan er í tveimur hlutum. Í þeim fyrri er frásögnin í þátíð og þar segir frá áfallinu sem fylgir greiningu sjúkdómsins og framgangi hans. Seinni hlutinn er í nútíð og segir frá Janusi eftir lát eiginkonu hans.

Sjónarhornið er aðstandandans, eiginmannsins Janusar, sem sveiflast milli trúðslegrar hnyttni, fáts og auðmýktar. Janus er nefnilega viðkvæmur, áfengissjúkur, sjálfhverfur og á sér óuppfylltan draum um að verða rithöfundur. Nú þarf hann að finna réttu orðin til að varðveita minningar, skynjun og tilfinningar. Janus horfir bæði aftur og fram á veginn. Hann vill skrifa um það sem eitt sinn var. Það er hann sem er sögumaðurinn – segir frá ástinni sinni, en mest frá sjálfum sér. Hér er á ferð sjálf sem er dálítið krefjandi að stofna til kynna við, mannlegt í ófullkomleika sínum. Þannig afhjúpar frásögnin með þematískum hætti þá möguleika og takmarkanir sem fylgja sjónarhorni sögumannsins. Léttur og myndrænn stíllinn minnir á samsettar úrklippur og rennur yfir á svið þess súrrealíska þegar hin húðflúraða Rósa flytur inn til Janusar, sem er einn eftir í íbúðinni og of áfengissjúkur til að greina veruleika frá draumum.

Aðalpersónunum tveimur er lýst á trúverðugan hátt. Í því býr lokkandi nánd hvernig þær umgangast hvor aðra og sjúkdóminn. Lýsingarnar á ástinni og sjúkdómnum eru fléttaðar haganlega saman við viðbrögð Janusar eftir lát konu hans, og við tilraunir hans til að lýsa veikindunum og hinni látnu – leita í myrkrinu til að skrifa á hið hvíta, eins og stendur í upphafi sögunnar og við lok hennar.

Oddfríður Marni Rasmussen (f. 1969) útskrifaðist frá Rithöfundaskólanum í Kaupmannahöfn árið 2000. Árið 2011 tók hann kennarapróf og starfar í dag sem kennari. Hann hefur einkum vakið athygli sem ljóðskáld, höfundur styttri prósatexta, ritlistarkennari, þýðandi og útgefandi Vencil, tímarits um fagurbókmenntir á færeysku. Hann hlaut Færeysku bókmenntaverðlaunin árið 2019 fyrir Ikki fyrr enn tá (Først når... í danskri þýðingu Hugin Eide hjá útgáfunni Torgard).