Peter Sandström: Transparente Blanche

Peter Sandström
Ljósmyndari
Robert Seger
Skáldsaga, Schildts & Söderströms, 2014.

Transparente Blanche er saga um ástina. Öldruð móðir hefur verið kölluð að sjúkrabeði  og biður miðaldra son sinn að snúa aftur heim. Eftir fjörutíu ára hlé hyggst hún í hinsta sinn beita lækningamætti sem hún uppgötvaði á unga aldri að hún byggi yfir.

Hún þarf á syninum að halda til að aka sér á fund sjúklingsins. Sonurinn er skáld en vinnur í áfengissjoppu í Eistlandi í hjáverkum. Hann hlýðir kallinu og kemur.

Á býlinu þeirra í smábæ í Austurbotni hefur verið stunduð eplarækt. Eitt sinn var þar faðir sem snyrti eplatrén og vonaðist eftir góðri uppskeru. Einnig hann fór í útköll; tók að sér að lóga hestum. Kringumstæður dauða hans koma fram með hætti sem er dæmigerður fyrir Sandström, líkt og í framhjáhlaupi: „Ég gaut augunum að bjálkanum sem pabbi festi reipið um.“

En spurningar brenna á syninum. Hann lítur svo á að móðir hans viti alla söguna en sé bundin þagnareiði og hringsólar því kringum hana eins og óleysta gátu. Allt sem hún gerir, klæðist, drekkur, borðar og segir verður merkingarþrungið í huga hans. Þetta sumar vill móðirin tala um ástina og þrátt fyrir vonbrigði lætur sonurinn smám saman undan; ástin erþess virði að velta fyrir sér. Samtalið um eðli ástarinnar heldur áfram allt til söguloka, stundum í greinilegum röksemdafærslum persónanna en einnig í framsetningu á tengslum þeirra og í atburðarásinni sem fer af stað. 

Það dregur nefnilega til tíðinda. Rykið er dustað af fleiru en Ford Capri-bifreiðinni sem hefur staðið í bílskúrnum síðan faðirinn dó. Móðirin dregur fram gömul föt og í vitund sonarins brjótast fram minningar um æskuást og samverustundir feðganna.

Með mæðginin innanborðs nær bíllinn áfangastað í Svarv, þar sem lækningin á að eiga sér stað. Þar eru loks veitt svör.

Sonurinn spyr af hverju faðir hans hafi dáið. Móðirin svarar að engu skipti hverju fólk deyi úr: „Hugsaðu frekar um fólkið sem þú elskar.“

Peter Sandström skrifar sig frá myndrænni framsetningu ástarinnar – hugmyndum sem við höfum úr sjónvarpsefni og bókmenntum og reynum stundum að eltast við – og að trú á þá ást sem býr í amstri hversdagsins og hlýju einfaldra hreyfinga, einhvers staðar á milli mælts máls og látbragðs. Hann talar um „lækningamátt þess að hafa nóg fyrir stafni“ og skrifar sig frá myndrænni framsetningu ritstarfa – skáldinu sem yrkir á kaffihúsum – að þeirri sýn að skrifin séu þörf erfiðisvinna sem, líkt og pípulagningar eða sandblástur, miði að því að sinna tilteknu kerfi og „sameina hluta þess í eina heild, láta það virka.“

Þessi áhrifaríka saga er þriðja skáldsaga hins finnlandssænska Peters Sandström, sem einnig hefur skrifað þrjú smásagnasöfn. Fljótt á litið virðist hún einföld að byggingu en reynist hlaðin sorg og furðu, depurð og gamni. Fallegur, nánast gagnsær textinn minnir á eplategundina sem bókin dregur nafn sitt af. Mjúkur og markviss stíll höfundar og mild sýn hans á mannfólkið og athafnir þess valda því að lesandinn hefur varann á, gagnvart lífinu í textanum sem utan hans.