Sebastian Johans

Sebastian Johans
Photographer
Severus Tenenbaum
Sebastian Johans: Broarna. Skáldsaga. Nirstedt/litteratur, 2020. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Brottflutningur íbúa hafði mikil áhrif á eyríkið Álandseyjar kringum aldamótin 1900.

Á þeim tíma voru fjölskyldur oft barnmargar og ógerningur að brauðfæða alla með gjöfum jarðarinnar og hafsins. Ameríka var draumalandið, sjóleiðin vestur heillaði og vakti fátækum von í brjósti. Þar beið fólks líka mikil erfiðisvinna. Margir áttu velgengni að fagna og náðu að festa rætur handan Atlantshafsins; aðrir sneru aftur, ýmist tómhentir eða með myndarlegan sjóð sem tryggði örugga framtíð. Brottflutningarnir byggðu brýr milli tveggja heimsálfa.

Innflytjendabókmenntir eru oft epískar að stíl og eru langar skáldsögur Vilhelms Moberg meistaraverk sænskrar tungu á því sviði. Í sinni fyrstu skáldsögu, Broarna („Brýrnar“, hefur ekki komið út á íslensku), sem er framlag Álandseyja til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021, kýs Sebastian Johans þó fremur að skapa hughrif gegnum frjálslegan stíl í stuttum, þéttum bókarköflum. Hér er sjónum beint að einstaklingum fremur en heildinni.

Frásögnin hverfist um nokkra Álendinga sem hafa yfirgefið heimaslóðirnar. Johans sækir í eigin ættarsögu og dregur jafnframt upp breiða, sögulega mynd af tímabilinu milli 1904 og 1932. Fyrri heimsstyrjöld og borgarastríðið í Finnlandi hafa djúpstæð áhrif á líf hinna brottfluttu.

Aðalpersónur sögunnar eru Carl og Ida-Levina. Þau koma úr sömu sókn en hittast og gifta sig í Bandaríkjunum. Carl er maður nýrra tíma; lítur sjaldan um öxl en einbeitir sér þess í stað að núinu og framtíðinni. Fyrir honum eru Bandaríkin land frelsis og stórra tækifæra, nokkuð sem öðlast margræða merkingu með hliðsjón af því að hann starfar lengi vel við að byggja brýr í New York. Hin gríðarmiklu grunnvirki, sem hann tekur þátt í að gera að veruleika, ögra viðteknum hugmyndum um gang tímans og fylla hann miklu stolti. Hann vill aldrei yfirgefa sitt nýja heimaland, þar sem hann finnur tímann streyma gegnum líkama sinn. Líkt og góðvinur hans Ossian segir: „Lífið er ævintýri.“

Ida-Levina stendur fyrir rótfestu. Hún kann vissulega að meta margt í því nútímalega samfélagi sem hún sér vaxa og dafna, en innst inni er hún kvalin af heimþrá. Hún vinnur fyrir eina af hinum auðugu fjölskyldum New York-borgar, þar sem hún er nokkurs konar lagsmær heimasætunnar. Sebastian Johans lýsir því í smáatriðum hvernig umhorfs er á heimili hástéttarfólks sem lifir ríkmannlega í aðdraganda kreppunnar miklu.

Carl og Ida Levina lifa lífinu í skugga harmleikja. Elsti sonur þeirra drukknar. Dóttir þeirra fær lömunarveiki. Móðirin tekur þessu sem merki: þetta er þá ekki landið hennar.

Carl fylgir henni aftur heim til Álandseyja, nauðugur viljugur. Þau verja sparifé sínu til kaupa á stóru húsi í Maríuhöfn, hinum ört vaxandi höfuðstað. Ida-Levina sér um öll praktísk mál, en Carl vill helst snúa aftur til Bandaríkjanna sem fyrst.

Sebastian Johans lyftir persónum sínum upp úr rökkvuðum kimum mannkynssögunnar í myndrænni skáldsögu, krökkri af litum, lykt og skynhrifum. Það er ekki síst hin hjartnæma mynd sem dregin er upp af Idu-Levinu sem ljær textanum dýpt. Johans starfar sem listgagnrýnandi – meðal annars fyrir Dagens Nyheter, stærsta dagblað Svía – og áhrif þess leyna sér ekki í hinum sjónræna og tjáningarríka stíl bókarinnar. Orðin eru jafn meitluð og litatónar í málverki eftir Gauguin eða van Gogh.

Það er frelsandi að lesa skáldsögu um brottflutninga sem, með sínu hægláta lagi, leyfir persónunum að taka pláss á eigin forsendum.

Langt er síðan hús Carls og Idu-Levinu var rifið. Á auðri lóðinni eru nú leifar af steingrunni, ummerki um garð, „ekki-stað á milli annarra staða“, eins og Sebastian Johans skrifar. Texti hans blæs lífi í borgarreit sem nú stendur auður og leyfir persónum sem eitt sinn hrærðust þar að stíga fram með þrár sínar og drauma.

Þannig nær Broarna að spanna hinn langa veg milli þess sem var þá og þess sem er nú.