Thorbjørn Petersen, Herman Ditte og Mårdøn Smet

Thorbjørn Petersen, Herman Ditte og Mårdøn Smet
Ljósmyndari
Thorbjørn Petersen (Thorbjørn Petersen), Sune Heide (Mårdøn Smet), Chrystal Astrid Andersen (Herman Ditte)
Thorbjørn Petersen, Herman Ditte og Mårdøn Smet: Den om Rufus. Myndabók, Gads Forlag, 2021. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Rökstuðningur

Erum við afsprengi náttúru eða menningar? Þessi kunnuglega tvískipting er í brennidepli í þessari heillandi og skemmtilegu myndabók um refinn Rufus, sem býr í borginni en villist eina nóttina inn í skóginn þar sem hann hittir fyrir flokk villtra refa. Áður en langt um líður hefur „villt og framandi tilfinning“ tekið sér bólfestu í Rufusi, sem hleypur um og ærslast allsnakinn – og án þess að sakna íbúðarinnar sinnar, hægindastólsins eða bolla af heitu tei.

 

Til allrar hamingju er ómögulegt að skera úr um hvort Den om Rufus („Þessi um Rufus“, hefur ekki komið út á íslensku) er teiknimyndasaga með myndabókarköflum eða myndabók með teiknimyndasöguköflum. Við verðum að láta okkur það nægja að kalla hana myndskreytta frásögn með einkenni bæði myndabóka og teiknimyndasagna, þar sem hún inniheldur ramma og talblöðrur en líka myndskreytingar sem ná yfir heilar síður. Og öfugt við það sem halda mætti um slíkt blendingsform er frásögnin svo lipur að það er engu líkara en að síðurnar fletti sér sjálfar. Skipt er áreynslulaust á milli teikninga sem eru innrammaðar og án ramma, auk heilsíðuteikninga. Hlutfall texta og mynda og samspilið þeirra á milli er svo létt og leikandi að aðdáun vekur. Einnig hér má finna samspil milli náttúru og menningar, líkt og minnst er á að ofan. Það er nefnilega engin togstreita á milli þessara fyrirbæra í frásögninni, heldur birtist þemað smám saman sem hvöt sem hægt er að læra að dvelja í. Því að Rufus endar ekki í skóginum, villtur og allsnakinn. Sagan kemur reyndar á óvart með því að hafa tvo vendipunkta. Sá fyrri er þegar Rufus enduruppgötvar villidýrið í sjálfum sér þegar hann hittir hina refina, og sá seinni þegar hann snýr aftur til síns siðmenntaða borgarsjálfs og hittir vinkonu sína, hænuna Hanne, sem er að hengja föt upp á snúru og sem hann ætlar að éta. Hanne er með heillandi, holdugan líkama og frekar smátt höfuð, sem við höfum áður kynnst á fallegri opnu þar sem við sjáum Rufus í búðinni hennar þar sem hann kíkir á hana með stífu, krumpuðu brosi og „finnur undarlega löngun til að gera eitthvað. En hann vissi ekki hvað.“

 

Þetta er falleg, hugvitsamleg og ótrúlega vel samin frásögn með ríkri áherslu á fagurfræðileg smáatriði – til dæmis er textinn handskrifaður. Myndirnar af stórborginni, iðandi af lífi, eru hrein nautn fyrir augað. Lesandinn staldrar við hverja síðu vegna fallegrar litadýrðar og sterkra, skemmtilega útlítandi fugla, sem eru ótrúlega margir – þeir velta nánast um á myndfletinum, sem er býsna skemmtilegt út af fyrir sig. Þessi myndheimur er í senn kunnuglegur og framandi. Kunnuglegur vegna þess að stórborgin með styttum sínum, bílum og almenningsgörðum minnir á Andabæ. Hænan Hanne minnir sömuleiðis á Disney-hænuna Clara Cluck. Hið framandi og furðulega birtist meðal annars í gríðarstórum dreka sem virðist sitja fastur í háhýsi þannig að höfuð og hali stingast út um glugga á sitthvorum enda byggingarinnar.

 

Þetta verk hefur sinn eigin vilja, en samt sem áður megnar hin myndskreytta frásögn að mæta lesendum á öllu aldri þar sem þeir eru staddir og gefa þeim nokkuð sem þeir vissu ekki að þá langaði í. Til þess þarf einfaldlega að fallast á forsendur frásagnarinnar og láta ölvast af heimi sem heldur hárbeittu jafnvægi milli náttúrunnar og siðmenningarinnar sem náði yfirhendinni – fyrir tilstilli refs. Eða er það öfugt?