Elin Persson

Elin Persson
Photographer
Caroline Andersson Renaud
Elin Persson: De afghanska sönerna. Unglingabók, Bonnier Carlsen, 2020. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Að loknu stúdentsprófi vinnur Rebecka á móttökustöð fyrir ungt, fylgdarlaust flóttafólk þar sem hún sinnir meðal annars þremur afgönskum drengjum. Hún hefur enga reynslu af málaflokkinum og veit ekkert um þarfir eða aðlögun flóttafólks, en er þó fljótlega komin í mikið ábyrgðarhlutverk og á að starfa samkvæmt leiðbeiningum. Starfsfélagi hvetur hana til að taka vinnuna ekki inn á sig, en hún á erfitt með að halda fjarlægð og skýla sér bak við reglur, ópersónuleg dagleg störf og formlega skrásetningu atvika. Stykkin í púsluspili þeirra áfalla sem drengirnir eiga að baki, líf þeirra, flótti og söknuðurinn eftir fjölskyldunni, smjúga inn gegnum orð þeirra og viðbrögð. Rebecka verður náin þeim, tengist þeim sterkum böndum, nær ekki að halda fjarlægð andspænis örlögum þeirra – og er magnvana þegar einn þeirra hlýtur hörmulegan dauðdaga.

De afghanska sönerna („Afgönsku synirnir“, hefur ekki komið út á íslensku) er fyrsta bók Elinar Persson, sem er félagsmannfræðingur að mennt. Persson hefur sjálf starfað á móttökustöð flóttafólks og lýsir afbragðsvel bæði hversdegi og neyðartilvikum við slíkar aðstæður, auk samstöðu og ósættis íbúanna meðan þeir þreyja hina löngu bið eftir vitneskju um hvort þeir fái að vera um kyrrt í landinu.

Elin Persson býður hvorki skýringar, lausnir né niðurstöður. Hún kemur lesandanum í skilning um þau átök sem hrærast undir yfirborðinu með því að lýsa því sem Rebecka verður vitni að. Það gerir hún af næmi, með góðu auga fyrir smáatriðum og á máli sem bæði er blátt áfram og ljóðrænt. Frásögnin er áhrifamikil, krökk af spennuþrungnum atvikum, en einnig full af kímni, líkt og í lýsingum á menningarmuni, misskilningi vegna tungumálaörðugleika og vanþekkingu drengjanna á hlutum sem við teljum sjálfsagða. Höfundur veigrar sér heldur ekki við að lýsa fordómum og fyrirfram mótuðum hugmyndum, bæði af hálfu drengjanna og starfsfólksins. Hún dregur upp auðuga, djúpa og margslungna mynd af drengjunum og tilveru þeirra á móttökustöðinni og gerir þá að ljóslifandi persónum. Úr verður átakanleg og raunsæ lýsing á þeim veruleika sem býr að baki tölfræðinni kringum flóttafólksbylgju ársins 2015.