Lóa H. Hjálmtýsdóttir

Lóa H. Hjálmtýsdóttir
Photographer
norden.org
Lóa H. Hjálmtýsdóttir: Grísafjörður: Ævintýri um vináttu og fjör. Unglingabók, Salka, 2020. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Undursamlegt hversdagslíf er aðalsmerki þessarar fallegu og hjartahlýju bókar. Fyndin og furðuleg innanhúsævintýri sem óhætt er að taka pásu í til að fá sér meira kakómalt og ristað brauð.

Tvíburarnir Inga og Baldur eru loksins komin í sumarfrí. Nú er ekkert framundan annað en að slappa rækilega af yfir teiknimyndum og láta myrkrið og skólaveturinn líða úr sér. Þau plön fara fyrir lítið því heima í eldhúsi sjá þau „grátandi smátröll, lítinn risa eða mjög stóran nágranna“ í miklu uppnámi. Albert er hvítskeggjaður og einrænn eldri maður sem býr á efstu hæðinni í fjölbýlishúsinu þar sem tvíburarnir búa með mömmu sinni.

Krökkunum líst ekkert á innrás þessa mikla gleðispillis en mamma þeirra kann ekki við annað en að bjóða þessum sorgmædda manni í kvöldmat. Yfir kjötbollum vaknar áhugi tvíburanna á að finna leiðir til hressa Albert við. Baldur hefur áhyggjur af því að hann sé einmana, og Inga rýkur þá fram og nær í frábæra uppfinningu sína: Veikindakassann. Í honum er meðal annars brandarabók, slím, galdradót og lítil tölvuspil frá því að mamma þeirra var ung. En gamli maðurinn kætist ekki einu sinni yfir glimmerslíminu.

Albert nær loksins að koma orðum að stóru sorginni. Alma er horfin. Veröldin hefur gleypt tvíburasystur hans og einu vinkonu, sem siglir um höfin á farskipi. Hann hefur ekki fengið póstkort frá henni í margar vikur og veit ekki hvað hann á til bragðs að taka. Eina vísbendingin er síðasta póstkortið þar sem Alma segist á leið til Grísafjarðar (Pig Beach). Litla fjölskyldan hjálpar Albert að útvega sér flugmiða, vegabréf og kreditkort og lofar að vökva blómin á meðan hann er úti í heimi að leita að systur sinni.

Laumubrandarar og litagleði í myndskreytingunum fylla Grísafjörð ærslafullri fegurð. Á köflum renna myndir og texti saman í myndasögur sem gaman er að grandskoða, og gefa skemmtilega sýn inn í tilfinningalíf persónanna. Tvíburarnir eru andstæðir pólar – Baldur kvíðinn og Inga hvatvís – og hugmyndir þeirra um veröldina eru æði ólíkar. Samband þeirra er þó bæði traust og dýrmætt. Þau eru góðir vinir sem styrkja hvort annað og endurspegla þannig Albert og Ölmu og ævilangt vináttusamband þeirra.

Frásagnarsviðið stækkar þegar heimurinn berst inn á heimili krakkanna með bréfasendingum Alberts og á meðan pakkar eru opnaðir fær lesandinn innsýn inn í hversdagslíf barnanna og mömmu þeirra. Þessar gamaldags bréfasendingar tengja líka kynslóðirnar, bæði huglægt og hlutlægt, og lesturinn gefur tvíburunum nasasjón af hinum stóra heimi. Svissnesku Alparnir, sem Albert segir börnunum frá í bréfi, spretta upp í leik barnanna sem fjallgarðar úr húsgögnum og hreinum þvotti.

Grísafjörður dregur fram mikilvægar spurningar um aukna fjarlægð milli fólks, kynslóða og nágranna. Setjum við sjálfum okkur mörk sem erfitt er að stíga yfir? Er einhvern tímann hentugt að fá fólk í óvænta heimsókn? Þetta er nærgætin umfjöllun um einangrun og einmanaleika, sem getur hrjáð bæði yngri og eldri kynslóðina, en sýnir líka leiðir til að mæta þessari ógn með hjartahlýju og kærleik. Í frásögninni er ákall til lesendahópsins um að láta sig annað fólk varða jafnvel þó að mann langi miklu meira að slappa af yfir teiknimyndum.

Lóa H. Hjálmtýsdóttir lærði myndlist og ritlist og býr í Reykjavík. Hún er myndlistarkona og söngkona hljómsveitarinnar FM Belfast. Grísafjörður, sem er fyrsta barnabók Lóu, hlaut Bóksalaverðlaunin og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2020.