Ný herferð: Deilið norrænum ummerkjum!

21.03.19 | Fréttir
The Nordics campaign on social media
Ljósmyndari
Unsplash
Á Degi Norðurlandanna þann 23. mars verður nýrri samfélagsmiðlaherferð ýtt úr vör undir merkjum The Nordics, alþjóðlegs kynningarverkefnis Norrænu ráðherranefndarinnar. Herferðin snýst um að bjóða fólki úr öllum heimshornum að deila norrænum frásögnum – sögum af norrænum ummerkjum – undir myllumerkinu #TracesofNorth. Saman getum við rakið okkur um allan heim!

Tilgangurinn með herferðinni er að kveikja umræður og safna saman stafrænu efni, en auk þess er um samkeppni að ræða. Öllum sem hugsa á norrænum nótum er boðið að deila frásögnum og koma af stað fjöldahreyfingu á Instagram og Twitter í félagi við norræn sendiráð um allan heim. Það sem þarf að gera er að koma auga á norræn ummerki hvar sem er í heiminum og deila þeim á samfélagsmiðlum – og hvetja heiminn allan til að taka þátt!

„Fyrir okkur er þessi herferð og aðrir liðir kynningarverkefnisins afar mikilvægir hvatar fyrir ný norræn samstarfsverkefni og samskipti á erlendri grundu. Verkefnið gefur stefnumótun landanna um kynningu aukið gildi og hjálpar okkur að efla hina sameiginlegu norrænu frásögn,“ segir Gabriella Augustsson, aðstoðarframkvæmdastjóri og yfirmaður á sviði ímyndarþróunar og menningarkynningar í sænska utanríkisráðuneytinu.

Fyrir okkur er þessi herferð og aðrir liðir kynningarverkefnisins afar mikilvægir hvatar fyrir ný norræn samstarfsverkefni og samskipti á erlendri grundu. 

Gabriella Augustsson

Norræn ummerki eru alls staðar

Herferðin Traces of North byggir á þeirri hugmynd að breiða norrænar frásagnir út um allan heim, og að hin norrænu ummerki endurspegli sameiginleg gildi á borð við traust, gagnsæi og jafnrétti. Þar getur verið um að ræða algild hugtök með norrænu sniði, bæði áþreifanlega hluti eins og á sviðum arkitektúrs, lista og tækni en einnig óhlutbundin fyrirbæri á borð við tjáningu menningar, stefnumótunar og hugmynda. Með ummerkjum er átt við hvaðeina sem upprunnið er á Norðurlöndum og hefur náð fótfestu annars staðar í heiminum. Tilgangurinn er ekki að sýna umheiminum Norðurlöndin heldur að vekja athygli á birtingarmyndum Norðurlanda í umheiminum.

Sameiginlegt átak

Þó að norrænu löndin hafi hvert sinn þjóðfána deila þau gildum og hefðum sem sameina þau og sem hafa einnig sett mark sitt á umheiminn. Tobias Grut, kynningarstjóri verkefnisins The Nordics, bindur miklar vonir við herferðina:

„Við erum reiðubúin að fylgja herferðinni eftir og koma Norðurlöndum í brennidepil, og við erum mjög spennt að sjá spennandi og fyndnar frásagnir verða til. Með sameiginlegu átaki munum við opna augu umheimsins fyrir norrænum ummerkjum.“

Þetta er í annað sinn sem kynningarverkefnið The Nordics tekur höndum saman við norræn sendiráð utan Norðurlanda. Herferðin #TracesofNorth einskorðast ekki við Dag Norðurlanda heldur varir hún út sumarið 2019. Með henni er árangri síðasta árs fylgt eftir, en þá var verkfærakassi kynningarverkefnisins kynntur.

Við erum reiðubúin að fylgja herferðinni eftir og koma Norðurlöndum í brennidepil, og við erum mjög spennt að sjá spennandi og fyndnar frásagnir verða til. Með sameiginlegu átaki munum við opna augu umheimsins fyrir norrænum ummerkjum!

Tobias Grut, kynningarstjóri The Nordics

Hver eru ykkar norrænu ummerki?

Allt sem þið þurfið að gera er að finna norræn ummerki í ykkar nærumhverfi, fanga frásögnina eða myndefnið og deila á Instagram eða Twitter með myllumerkinu #TracesofNorth. Við mælum með að fylgja The Nordics á samfélagsmiðlum og fá innblástur frá þeim fjölmörgu norrænu ummerkjum sem þegar hefur verið deilt.

Hefjum leikinn!

Um The Nordics

The Nordics er kynningarverkefni Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir Álandseyjar, Danmörku, Færeyjar, Finnland, Grænland, Ísland, Noreg og Svíþjóð. Verkefnið hefur verið þróað með það að markmiði að auka sýnileika, áhrif og samkeppnisstöðu Norðurlanda í heiminum.