Norræna hönnunarsamkeppnin: þetta eru sigurstólarnir

08.11.18 | Fréttir
Here are the winning Nordic sustainable chairs
Photographer
The Nordics
Fimm sigurvegarar hafa verið valdir í norrænni hönnunarsamkeppni um sjálfbæra stóla. Eintökin verða kynnt með áberandi hætti í skála Norðurlanda á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP24), til að draga athygli að mikilvægi sjálfbærrar hönnunar í loftslagsumræðunni.

Alþjóðlegt kynningarverkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, The Nordics, tók saman höndum við hönnunarmiðstöðvar á Norðurlöndum um að halda hönnunarsamkeppni um sjálfbæra stóla. Markmiðið er að auka meðvitund um sjálfbæra hönnun og að hvetja til hönnunarmiðaðrar hugsunar í loftslagsumræðum, á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember. Nú hefur norræna dómnefndin valið fimm sigurstóla:

„Við leituðum til allra norrænna hönnuða, með sannarlega lýðræðislegum hætti, ekki einungis gamalgróinna fyrirtækja og framleiðenda. Sigurstólarnir fimm verða til sýnis frammi fyrir þjóðarleiðtogum og munu vekja athygli á norrænni hönnun, sem og því mikilvæga hlutverki sem hönnun getur leikið í að uppfylla sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna. Sigurstólarnir útvíkka mörk þess sem telst vera sjálfbær hönnun,“ segir Tobias Grut, markaðsstjóri The Nordics-verkefnisins.

Fimm sigurstólar

Sigurstólarnir eru:

  • „The Coastal Furniture“ eftir Nikolaj Thrane Carlsen, Danmörk
  • „HÅG Capisco“ eftir Peter Opsvik, Noregur 
  • „Petite“ eftir David Ericsson, Svíþjóð
  • „KOLLHRIF“ eftir Sölva Kristjánsson, Ísland 
  • „Clash 331“ eftir Samuli Naamanka, Finnland 

„Sigurvegurunum tókst að samtvinna fallega og einstaka norræna hönnun við sjálfbærni. Stólarnir eru frábær leið til að hefja samtal um hvernig hönnunarmiðuð hugsun getur hjálpað til við úrlausn flókinna mála, svo sem loftslagsvandamála. Við vonumst líka til þess að þeir kveiki umræðu um framtíð sjálfbærrar hönnunar,“ segir Grut.

Þeir samstarfsaðilar sem komu að kynningu á samkeppninni, hvatningu til þátttakenda og að því að dæma innsend eintök eru hönnunarmiðstöðvar landanna fimm: DOGA í Noregi, Danish Design Centre, Hönnunarmiðstöð Íslands, Ornamo í Finnlandi og Svensk Form í Svíþjóð. Hvert land setti saman dómnefnd sem valdi svo sigurvegara úr mörgum frábærum innsendum eintökum.

Sýning á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna

Norrænu sigurstólarnir verða sendir á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP24) í Katowice í Póllandi, þar sem þeir verða hluti af sjálfbærnisýningu í skála Norðurlanda. Fjöldi fólks mun berja stólana augum, en gert er ráð fyrir að fleiri en 30.000 manns taki þátt á COP24 í desember.

Á ráðstefnunni verður svo einn sigurstóll valinn úr hópi norrænu stólanna, með svokölluðum „verðlaunum fólksins“, þar sem þátttakendur og fulltrúar kjósa um sinn eftirlætisstól úr hópi norrænu stólanna fimm. Eftir að loftslagráðstefnunni lýkur, verða stólarnir til sýnis í eitt ár á Design Werck í Kaupmannahöfn.