Falsfréttir og lýðræði þema á vorþingi Norðurlandaráðs

27.02.20 | Fréttir
Anteckningar, pressmöte på Nordiska rådets session i Stockholm 2019
Ljósmyndari
Johannes Jansson
Athugið! Þemaþinginu hefur verið aflýst vegna kórónuveirunnar. Hvernig stöndum við best vörð um lýðræðið og verjumst upplýsingaóreiðu og falsfréttum? Þetta verður þema vorþings Norðurlandaráðs í Helsinki dagana 30. og 31. mars. Fjölmiðlum er velkomið að fylgjast með þinginu.

Meðal þeirra sem funda þessa tvo daga eru allar fjórar fagnefndir ráðsins og forsætisnefnd ásamt flokkahópunum fimm.

Sjálft þingið verður haldið seinni fundardaginn, sameiginlegur fundur allra 87 fulltrúa Norðurlandaráðs. Umræðuefnið er lýðræði og falsfréttir sem einnig er eitt forgangsmálefnanna í formennsku Íslands í Norðurlandaráði árið 2020.

Í formennskuáætlun sinni bendir Ísland á upplýsingaóreiðu og falsfréttir sem ógn gegn trausti í samfélögum okkar og gegn grundvallargildum lýðræðis.

„Að standa vörð um lýðræðið og verjast upplýsingaóreiðu er veigamikið forgangsmálefni Íslands árið 2020. Okkur langar að sýna fram á hvernig Norðurlöndin geta beitt sér í sameiningu gegn falsfréttum. Getum við til dæmis styrkt stöðu vandaðra fjölmiðla og getum við aukið meðvitund meðal almennings,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs.

Þingið er opið fjölmiðlafólki

Umræður vorþingsins um lýðræði og falsfréttir verða í Lilla Parlamentet 31. mars kl. 10.50-11.45. Yfirskrift umræðnanna er Villandi upplýsingar ógn við norræna líkanið: Hvernig stöndum við vörð um lýðræðið og verjumst upplýsingaóreiðu og falsfréttum sem grafa undan því?

Umræðan er opin fjölmiðlum. Fjölmiðlafólk sem hefur áhuga á að fylgjast með umræðunum getur skráð sig hjá Matt Lindqvist, upplýsingaráðgjafa Norðurlandaráðs á netfanginu matlin@norden.org eða í síma +45 29 69 29 05 í síðasta lagi 27. mars, kl. 12 að sænskum tíma. Krafist er blaðamannaskírteinis eða vottorðs.

Eftir umræðurnar verður haldinn stuttur blaðamannafundur með forseta Norðurlandaráðs og öðru stjórnmálafólki eftir þörfum.

Þingfundi verður fram haldið kl. 12.45 með afgreiðslu á þingmannatillögum og verður fundi slitið kl.14.30 Þemaumræðunum í þingsalnum verður streymt beint á netinu. Hlekkur kemur síðar.

Norðurlandaráð heldur einnig sameiginlegan fund fyrri fundardaginn, 30. mars. Þema þess fundar er hnattræn vídd norræna líkansins. Fundurinn er haldinn í fundarsal þinghússins kl. 14.45-16 og er opinn fjölmiðlum. Skráning fer fram eins og lýst er hér að ofan.

Norðurlandaráð er opinber samstarfsvettvangur þjóðþinga Norðurlanda. Ráðið skipa 87 fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.

Tengiliður