Norðurlöndin í rússneskum miðlum – og öfugt

29.04.19 | Fréttir
Medier ved statsministrenes pressekonference, Nordisk Råds Session 2018

Medier ved statsministrenes pressekonference, Nordisk Råds Session 2018

Photographer
Sara Johannessen
Umfjöllun norrænna fréttamiðla um Rússland árið 2018 var að meginhluta neikvæð og einkenndist af tortryggni í garð fyrirætlana og aðgerða Rússlands og Pútíns, forseta landsins. Sömuleiðis lýstu fjölmiðlar í Moskvu Norðurlöndunum sem hluta af Evrópu í upplausn með ósiðlegri menningu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Norrænu blaðaðamannamiðstöðinni, NJC.

„Blaðamennskan í norrænum fjölmiðlum var ekki hlutdræg og innihald ritstjórnarefnis einkenndist ekki af kaldastríðshugsun en það er samt augljóst að ákveðna þætti vantar,“ segir stjórnandi verkefnisins sem stóð í tvö ár, Lars Kabel, lektor við Danmarks Medie- og Journalisthøjskole.

Skýrslan sýnir að áherslan í norrænum fjölmiðlum var á Kreml, vald, stjórnmál og andstöðu. Lars Kabel leggur áherslu á að hafa verði í huga að veruleiki norrænu fréttamiðlanna sé sá að greina frá þeirri fjandsamlegu orðræðu sem ráðherrar og aðrir stjórnmálamenn viðhafa iðulega um Pútín og tengslin við Rússland. Rússlandi var lýst sem fjandsamlegu landi um öll Norðurlönd árið 2018.

Þessar athuganir koma fram í nýrri rannsókn Russia in Nordic News Media. Coverage of Nordic Countries in News Media of Russia. Rannsóknin var fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni.

Sex vísindamenn/rannsóknarmenn frá Rússlandi, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð skoðuðu árið 2018 samtals 1.832 fréttir á vef, í dagblöðum og á ljósvakamiðlum 42 stærstu fjölmiðla og sjónvarpsstöðva landanna fimm.

Munur á umfjöllun í Moskvu og Norðvestur-Rússlandi

Umfjöllun rússneskra miðla um Norðurlönd er einnig greind í skýrslunni. Mikill munur er á umfjöllun miðla í Moskvu sem ná til alls landsins og umfjöllun miðla í Norðvestur-Rússlandi. Frá Moskvu komu árið 2018 harðar erlendar fréttir með áherslu á Norðurlöndin sem hluta af Evrópu í upplausn og stundum dæmum um ósiðlega norræna menningu sem andstæðu við sterk rússnesk fjölskyldugildi.

Í Norðvestur-Rússlandi sem snýr að Evrópu og sem stórborgin Sankti Pétursborg er miðpunktur einkenndi mýkri fréttamennska þá tiltölulega fáu fréttamiðla sem sýndu Danmörku, Noregi og Svíþjóð áhuga yfirleitt. Nágrannalandið Finnland fékk miklu meiri athygli.

Umfjöllun norðvestur-rússnesku miðlanna um Norðurlönd snerist síður um stjórnmál, þar var flæði frétta, oft jákvæðara, um það sem átti sér stað á Norðurlöndum, segir í niðurstöðum. Þegar fjarlægðin var minni, tengslin nánari, þá breyttist fjölmiðlaumfjöllunin.

Nánari upplýsingar:

John Frølich, NJC

Sími: +45 20 950 945

Netfang: jf2@dmjx.dk