Atvinnuleit í Finnlandi

Työnhaku Suomessa
Hér er sagt frá atvinnuleit í Finnlandi og því hvernig sækja má um vinnu í Finnlandi frá öðru landi.

Hægt er að sækja um vinnu í Finnlandi frá öðru landi, eða eftir að komið er til Finnlands.

Einnig er hægt að koma til Finnlands meðan á atvinnuleit stendur og fá þar atvinnuleysisbætur, en þá þarf að skrá sig atvinnulausan í brottfararlandinu með góðum fyrirvara. Nánari upplýsingar um atvinnuleysisbætur í Finnlandi eru hér.

Hægt er að skoða laus störf á vefsvæði finnsku stofnunarinnar um atvinnumál og efnahagsþróun.

Atvinnuleit í Finnlandi

Einstaklingar í atvinnuleit geta skráð sig hjá finnsku stofnuninni um atvinnumál og efnahagsþróun. Notendur finnskra netbanka eða handhafar finnskra persónuskilríkja með kísilflögu (e. microchip) geta einnig skráð sig rafrænt.

Gott er að kynna sér síðuna te-palvelut.fi á vefsvæði finnsku stofnunarinnar um atvinnumál og efnahagsþróun. Työlinja-palvelu veitir ráðgjöf um ýmislegt sem snýr að atvinnuleit, menntun og því að starfa sjálfstætt í Finnlandi. Þar eru einnig veittar upplýsingar um atvinnuleysisbætur, sérstök kjör sem námsfólki bjóðast og þá þjónustu sem finnska stofnunin um atvinnumál og efnahagsþróun veitir.

Undir flipanum Työnhakijan palvelut á Te-palvelut.fi eru tenglar á aðrar finnskar vefsíður sem tengjast atvinnuleit. Auk þess auglýsa mörg fyrirtæki og stofnanir lausar stöður á eigin vefsíðum. Störf hjá ríkisstofnunum eru auglýstar á vefnum Valtiolle.fi Lausar stöður eru einnig auglýstar í dagblöðum, einkum sunnudagsblöðunum, og á vefsíðum dagblaða. Hægt er að lesa stærstu finnsku dagblöðin í lestrarsölum á bókasöfnum finnsku sveitarfélaganna.

Atvinnuleit frá öðru landi

EURES (European Employment Services) er atvinnumiðlun Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en auk ESB-landa tekur hún til Noregs, Íslands, Liechtenstein og Sviss. Á vefsvæði EURES er m.a. hægt að skoða auglýsingar um lausar stöður frá vinnumálastofnunum aðildarlandanna. Þar eru einnig tengiliðaupplýsingar EURES-ráðgjafa í hinum ýmsu löndum. EURES-ráðgjafi í þinni heimabyggð getur ráðlagt þér um málefni sem tengjast því að starfa í Finnlandi. Ungt fólk í atvinnuleit getur einnig fengið fjárhagslegan stuðning gegnum svonefnt Eka EURES-verkefni

Annar valkostur eru einkareknar atvinnumiðlanir, en gegnum þær er auðvelt að sækja um vinnu frá öðru landi. Þó er algengt að vefsíður slíkra atvinnumiðlana í Finnlandi séu á finnsku. Sumir finnskir vinnuveitendur auglýsa lausar stöður einnig á sænsku og ensku á vefsíðum sínum.

Einnig er hægt að skoða lausar stöður á te-palvelut.fi, vefsvæði finnsku stofnunarinnar um atvinnumál og efnahagsþróun. Fyrirtæki auglýsa stöður á sænsku og ensku ef kunnátta í þessum málum er á meðal hæfniskrafna vegna starfsins.

Atvinnulaus til Finnlands í atvinnuleit?

Atvinnulaust fólk frá aðildarlöndum ESB og EES heldur atvinnuleysisbótum frá brottfararlandi sínu í lengsta lagi í sex mánuði eftir að komið er til Finnlands í atvinnuleit. Til þess þarf að fylla út eyðublað U2 í brottfararlandinu. Meðan á atvinnuleit stendur er viðkomandi tryggður hjá almannatryggingum þess lands þar sem hann var síðast í vinnu. Ekki er hægt að vera tryggður í finnska almannatryggingakerfinu á sama tíma.

Fái viðkomandi vinnu í Finnlandi verður hann tryggður með sömu kjörum og vinnandi fólk þar í landi. Viðkomandi borgar þá ekki lengur í atvinnuleysissjóð þess lands sem hann starfaði áður í, heldur fer að greiða í samsvarandi sjóð í Finnlandi.

Fái viðkomandi ekki vinnu í Finnlandi innan sex mánaða frá komunni þangað, og vilji hann ekki tapa rétti sínum til atvinnuleysisbóta, þarf hann að snúa aftur til heimalandsins.

Einstaklingur í atvinnuleit sem hefur fyllt eyðublað U2 út í öðru ESB- eða EES-landi eða í Sviss, og hefur auk þess evrópskt sjúkratryggingakort, á rétt á heilbrigðisþjónustu í Finnlandi.

Ef einstaklingur starfar í Finnlandi en missir vinnuna áður en hann hefur áunnið sér rétt til atvinnuleysisbóta, er að vissum skilyrðum uppfylltum hægt að telja með þau réttindi sem hann kann að hafa áunnið sér í öðru ESB- eða EES-landi. Til þess þarf að fylla út upplýsingar um fyrri starfstímabil í skjal U1. Að öðrum kosti mun finnska almannatryggingastofnunin, Kela, eða atvinnuleysistryggingasjóður Finnlands óska eftir upplýsingunum frá yfirvöldum landsins sem síðast var unnið í.

Nánari upplýsingar veitir vinnumálastofnun eða atvinnuleysistryggingasjóður í þínu landi.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna