Atvinnuleit í Svíþjóð
Ef þú ert norrænn ríkisborgari getur þú starfað í Svíþjóð án þess að sækja um atvinnuleyfi.
Ef þú ert ekki norrænn ríkisborgari, ríkisborgari í ESB/EES eða Sviss þarftu að sækja um atvinnuleyfi í Svíþjóð. Þú þarft sækja um leyfið í heimalandi þínu eða því landi þar sem þú bjóst seinast og fá það samþykkt áður en þú heldur til Svíþjóðar. Atvinnuveitandi þinn í Svíþjóð þarf að kanna hvort þú hafir atvinnuleyfi.
Atvinnuleit í Svíþjóð
Á vefsvæði atvinnumiðlunarinnar (Arbetsförmedlingen) getur þú fundið fjölda atvinnuauglýsinga fyrir störf bæði í opinbera geiranum og í einkageiranum. Þú getur líka útbúið ferilskrá þannig að atvinnuveitendur geti auðveldar fundið þig og þar geturðu fundið netnámskeið sem leiðbeina þér um atvinnuleit í Svíþjóð.
Opinberar vinnumiðlanir í ESB/EES-löndunum eru með samstarfsnet sín á milli sem nefnist EURES. Á vefsíðu EURES geturðu fundið laus störf í allri Evrópu og ráðgjafa EURES. EURES-ráðgjafar geta svarað spurningum um vinnu í Svíþjóð og öðrum ESB/EES-löndum.
Einnig er fjöldi einkarekinna atvinnumiðlana í Svíþjóð. Sænskir atvinnurekendur nýta bæði opinberar atvinnumiðlanir og einkareknar þegar þeir leita að nýju starfsfólki.
Þú getur leitað til einkarekinna atvinnumiðlana sem aðstoða fyrirtæki við að finna starfsfólk, heimsótt vefsvæði fyrirtækjanna sjálfra til að sjá hvort þau auglýsi laus störf þar eða sent opna umsókn (spontantansökan) beint til þeirra. Þá geturður fylgst með samfélagsmiðlum.
Réttindi þín á sænskum vinnumarkaði
Mikilvægt er að þú þekkir réttindi þín á vinnumarkaði áður en þú hefur störf í Svíþjóð og fullvissir þig um að starfskjörin séu í lagi.
Norrænu löndin eru svipuð hvert öðru – einnig hvað varðar vinnumarkað. Hins vegar er ráðningarkjör mismunandi á milli landanna. Það er því góð hugmynd að skoða hvaða reglur eiga við þegar þú vinnur í Svíþjóð, bæði hvað varðar réttindi og til hvers er ætlast af þér.
Þegar þú færð starf í Svíþjóð eru ráðningarkjörin yfirleitt bundin almennum kjarasamningum (kollektivavtal). Það veldur því að ekki er hægt að semja um ráðningarsamninginn þinn að neinu ráði.
Vinnutími í Svíþjóð ræðst af kjarasamningum og lögum um vinnutíma. Almennur vinnutími í Svíþjóð takmarkast við 40 klst. á viku fyrir fullt starf.
Bæði launþegar og vinnuveitendur eru bundnir tilteknum reglum hvað varðar uppsögn og starfslok.
Þú getur haft samband við stéttarfélagið þitt og fengið nánari upplýsingar um ráðningarkjör í þínu fagi í Svíþjóð.
Atvinnuleit í Svíþjóð á bótum frá heimalandinu
Ef þú færð atvinnuleysisbætur frá norrænu ríki geturðu fengið þær greiddar í þrjá mánuði frá heimalandinu á meðan þú ert í atvinnuleit í Svíþjóð.
Skilyrðið er að þú sért á atvinnuleysisbótum og uppfyllir önnur skilyrði í landinu þar sem bæturnar eru greiddar út.
Til þess að fá atvinnuleysisbætur á meðan þú leitar að starfi í Svíþjóð skaltu hafa vottorð PD U2 frá því stjórnvaldi sem greiðir bæturnar. Ef þú færð atvinnuleysisbætur frá Færeyjum eða Grænlandi þarftu vottorð N-303.
Við komuna til Svíþjóðar skaltu leita til sænsku vinnumiðlunarinnar (Arbetsförmedlingen) með vottorðið svo þú getir skráð þig og komist inn á sænskan vinnumarkað. Þú munt halda áfram að fá atvinnuleysisbæturnar greiddar frá viðkomandi stofnun í heimalandinu.
Hafðu samband við þá stofnun sem greiðir út atvinnuleysisbæturnar tímanlega fyrir ráðgerða brottför til Svíþjóðar til þess að afla þér upplýsinga um sérstök skilyrði, tímafresti og hugsanlega bið eftir afgreiðslu málsins.
Ef þú færð starf í Svíþjóð
Ef þú finnur vinnu í Svíþjóð þarftu yfirleitt að hafa atvinnuleysistryggingu þar. Það þýðir að þú þarft að skrá þig í sænskan atvinnuleysistryggingasjóð (A-kasse).
Þú þarft PD U1-vottorð til að flytja réttindi þín til atvinnuleysistryggingar frá einu landi til atvinnuleysistryggingasjóðs í Svíþjóð.
Mikilvægt er þú skráir þig í sænskan atvinnuleysistryggingasjóð frá þeim degi sem þú hefur störf í Svíþjóð því það getur valdið vandræðum ef tryggingartímabilið rofnar.
Ef þú finnur ekki starf í Svíþjóð
Ef þú finnur enga vinnu í Svíþjóð innan þriggja mánaða þarftu að snúa aftur til þess lands þar sem þú hefur atvinnuleysistryggingu og skrá komu þína hjá viðkomandi atvinnuleysistryggingasjóði. Ef þú gerir það ekki missir þú rétt þinn til atvinnuleysisbóta.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.