Meðganga og fæðing í Finnlandi

Raskaus ja synnytys Suomessa
Hér eru upplýsingar um meðgöngueftirlit og fæðingu í Finnlandi, svo og um svokallaðan mæðrastyrk og mæðrapakka.

Eftirlit á meðgöngu

Einstaklingar með fasta búsetu í Finnlandi eiga rétt á opinberri heilsugæsluþjónustu án endurgjalds á meðgöngutíma og að meðgöngu lokinni. Á eðlilegri meðgöngu bjóðast að minnsta kosti 8–10 skoðanir á heilsugæslu að viðstöddum hjúkrunarfræðingi og lækni. Að minnsta kosti 15 skoðanir fara fram í ungbarnaeftirliti eftir að barnið er fætt.

Einstaklingar sem sjúkratryggðir eru í öðru ESB/EES-landi eða Sviss og dvelja tímabundið í Finnlandi eiga rétt á nauðsynlegri læknisþjónustu í Finnlandi, svo sem eftirliti á meðgöngu. Nánari upplýsingar um skilgreiningu á nauðsynlegri læknisþjónustu í Finnlandi eru á síðunni Réttur til heilbrigðisþjónustu í Finnlandi.

 

Fæðing

Einstaklingar búsettir í Finnlandi eiga rétt á sérlæknaþjónustu heilbrigðiskerfisins, þar á meðal í tengslum við fæðingu. Fólk sem dvelur tímabundið í Finnlandi og er sjúkratryggt í öðru ESB/EES-landi eða Sviss á einnig rétt á heilbrigðisþjónustu vegna fæðingar gegn sama gjaldi og aðrir íbúar í sama sveitarfélagi. Upphæðin getur verið breytileg eftir sveitarfélagi.

Einstaklingar sjúkratryggðir í öðru norrænu landi eiga rétt á þjónustu í tengslum við fæðingu gegn framvísun opinberra skilríkja frá heimalandi sínu (til dæmis ökuskírteinis eða vegabréfs), auk þess að gefa upp fast heimilisfang sitt í öðru norrænu landi. Einnig er hægt að framvísa evrópsku sjúkratryggingakorti.

Einstaklingar sem koma gagngert til Finnlands til þess að fæða barn frá öðru ESB/EES-landi eða Sviss þurfa að hafa sótt um leyfi til þess fyrirfram frá heimalandi sínu ef þeir vilja fá þjónustuna á sama verði og íbúar viðkomandi sveitarfélags í Finnlandi. Sótt er um leyfið með eyðublaði E112/S2. Hægt er að sækja um hjá yfirvöldum almannatrygginga í heimalandinu. Nánari upplýsingar á síðunni Réttur til heilbrigðisþjónustu í Finnlandi.

Mæðrastyrkur

Allir sem eru almannatryggðir í Finnlandi geta sótt um mæðrastyrk þegar liðnir eru minnst 154 dagar af meðgöngu. Styrkurinn er annað hvort mæðrapakki, sem inniheldur meðal annars ungbarnaföt og aðrar nauðsynjar, eða skattfrjáls peningaupphæð.

Skilyrði fyrir styrknum er að umsækjandi hafi farið í mæðraskoðun hjá lækni eða á heilsugæslu í Finnlandi fyrir lok fjórða meðgöngumánaðar.

Mæðrapakkinn er ekki sendur til útlanda en einstaklingar sem eru almannatryggðir í Finnlandi en dvelja í öðru landi geta fengið peningaupphæðina greidda.

Sækja þarf um mæðrastyrk minnst tveimur mánuðum fyrir settan fæðingardag. Nánari upplýsingar um umsóknarferlið eru á vefsvæði Kela (á finnsku).

Mæðrastyrkur vegna ættleiddra barna

Foreldrar sem ættleiða geta fengið mæðrastyrk ef barnið er yngra en 18 ára. Sé um millilandaættleiðingu að ræða þarf einnig að fá leyfi frá sérstakri nefnd um ættleiðingarmál (fi. lapseksiottamisasioiden lautakunta). Þegar ákveðið hefur verið að barn verði gefið til ættleiðingar geta væntanlegir foreldrar sótt um styrkinn.

Mæðrastyrkur vegna fjölbura

Ef foreldrar eignast fjölbura hækkar mæðrastyrkurinn sem því nemur þannig að fyrir annað barn fæst tvöfaldur mæðrastyrkur, fyrir þriðja barn þrefaldur styrkur o.s.frv. Foreldrar geta einnig valið að fá hluta af innihaldi mæðrapakkans og hluta fjárstyrksins.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna