Ráðherrar umhverfis- og loftslagsmála á Norðurlöndum kalla eftir metnaði og aðgerðum í loftslagsmálum

Á fundi sínum þann 3. maí ræddu norrænu umhverfis- og loftslagsráðherrarnir stöðu mála í alþjóðlegum viðræðum um loftslagsbreytingar.

Óhugnanlegar niðurstöður síðustu IPCC-skýrslna undirstrika mikilvægi þess að setja aukinn kraft í aðgerðir til að takast á við loftslagsbreytingarnar.

Loftslagsráðstefnan COP 27 verður að sýna fram á marktækan árangur á öllum sviðum og sameina alla hagsmunaaðila þennan mikilvæga áratug.

Öll lönd verða að miða ákvarðanir sínar innanlands og stefnu um losun við 1,5 gráður.

Stórtækir losunaraðilar (G20) sem ekki enn hafa gert það þurfa að draga hraðar og meira úr losun en núverandi markmið gera ráð fyrir með góðum fyrirvara fyrir COP 27 í því augnamiði að leggja sitt af mörkum til að halda markmiðinu um 1,5 gráður innan seilingar.

 

Emma Kari, umhverfis- og loftslagsráðherra Finnlands: 

„Nýjasta skýrsla IPCC leggur áherslu á knýjandi þörf á skjótum og skilvirkum aðgerðum á öllum sviðum samfélagsins. Við, Norðurlönd, höfum margt fram að færa í þágu loftslagsaðgerða. Með framsæknum lausnum á sviði orkumála, úrgangsmála og hringrásarhagkerfisins getum við og munum vera í fylkingarbrjósti við að ná loftslagsmarkmiðum.“

 

Espen Barth Eide, loftslags- og umhverfisráðherra í Noregi:

„Orkuskiptin þurfa að vera hraðari og umfangsmeiri. Við fordæmum harðlega tilefnislausa og ólöglega árás Rússlands á Úkraínu með aðstoð Belarús. Þörfin á orkuinnflutningi sem er óháður Rússlandi verður að leiða til skjótrar og viðvarandi minnkunar á eftirspurn eftir orku og breytinga í átt að endurnýjanlegum orkugjöfum.“

 

Norrænu löndin ítrekuðu þá stefnu sína að vera leiðandi í umskiptum yfir í [kolefnishlutlaus og] láglosandi samfélög. Öll norrænu löndin munu vinna að því að takmarka hnattræna hlýnun við 1,5 gráður með metnaðarfullum markmiðum og aðgerðum sem miða að kolefnishlutlausri Evrópu árið 2050.

 

Dan Jørgensen, loftslagsráðherra Danmerkur:

„Þörfin á grænum umskiptum á heimsvísu er meiri en nokkru sinni. Við erum ekki á réttri leið með að ná markmiðum Parísarsáttmálans og þar sem orkukreppa vofir yfir heimsbyggðinni vegna óréttmætrar og tilefnislausrar árásar Vladimirs Putin á Úkraínu er þörfin á því að skipta hraðar úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orku skýrari en nokkru sinni fyrr. Norðurlönd hafa mörg svör og lausnir fyrir sjálfbærari framtíð.“

 

Annika Strandhäll, loftslags- og umhverfisráðherra Svíþjóðar:

„Norrænu löndin leggja áherslu á bæði mikilvægi loftslagsaðgerða og tækifærin sem í þeim felast. Hraðari umskipti skapa ný störf og efnahagsleg tækifæri með því að skapa kolefnishlutlaus hagkerfi morgundagsins. Norræn stefnumótun og norrænir viðskiptaaðilar geta veitt innblástur og lausnir sem ýta undir umskiptin á heimsvísu.“

 

Margar lausnanna eru nú þegar til og þarf að flýta fyrir þeim. Norrænu löndin leggja á það áherslu að þau muni:

  • viðhalda og auka við hátt kolefnisverð í hagkerfum sínum sem mikilvægt og árangursríkt verkfæri við umskipti í átt til kolefnishlutleysis til langs tíma.
  • fylgja metnaðarfullum vegvísum til að örva grænan og samkeppnishæfan iðnað og fyrirtæki.
  • tryggja að umskiptin yfir í kolefnishlutleysi verði réttlát með því aðstoð norræna líkansins og að þríhliða samstarf verði grundvöllur réttlátra umskipta í norrænu löndunum.
  • leggja sitt af mörkum við innleiðingu metanskuldbindingarinnar frá Glasgow.
  • ýta undir kolefnisgeymslu í skógum, jarðvegi og jarðmyndunum ásamt því að styðja við lífgrundað hagkerfi, enda mun mikilvægi þess aukast á næstu áratugum. Í norrænu löndunum eru töluverð tækifæri, þótt ólík séu, til slíkrar bindingar. Þetta getur verið mikilvægur þáttur í alþjóðlegu samstarfi í framtíðinni, einnig með tilliti til Evrópu.
  • hraða umskiptum í átt til aukins hringrásarhagkerfis til að stuðla að því að markmið um loftslag og líffræðilega fjölbreytni náist.
  • halda áfram vinnu sinni að jafnrétti kynjanna og valdeflingu allra kvenna og stúlkna með tilliti til loftslagsbreytinga eins og kveðið var á um á nýlegu þingi Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti (CSW66) og halda áfram að fylgja þeirri stefnu eftir.

 

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Íslands:

„Norrænu löndin eru auðug uppspretta grænna lausna en við verðum að gefa í heima fyrir og einnig flytja þær út. Það á við um endurnýjanlega orku, kolefnisbindingu og margar aðrar loftslagsvænar lausnir. Yfirstandandi kreppa vegna óvissu í orkumálum eykur enn á þörfina á umskiptum yfir í hreina orku. Við höfum sett okkur háleit markmið, nú verðum við að láta verkin tala.“

 

Norrænu löndin staðfestu að þau muni halda áfram samstarfi sínu við alþjóðlega aðila í þágu loftslagsmála á heimsvísu og verði áfram á meðal helstu fjármögnunaraðila loftslagsaðgerða. Það felur í sér skuldbindingu við samning um auknar fjárveitingar vegna aðlögunar frá Glasgow, þar á meðal ákall um að tvöfalda fjárveitingar vegna aðlögunar fyrir árið 2025.