Umhverfisráðherra Svíþjóðar setur norræna sjálfbærniráðstefnu
Ráðstefnan rekur endahnútinn á verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar, Sustainable Living, sem ráðherranefndin fjármagnaði og Nordregio hélt utan um.
Tilgangur verkefnisins er að ýta undir sjálfbæran lífsstíl út frá heildstæðri nálgun. Þetta endurspeglast í uppleggi ráðstefnunnar Sustainable Living Summit. Fjallað verður um fjölbreytt umræðuefni, allt frá málefnum ungmenna og menntamálum til matvælakerfa, menningar- og jafnréttismála. Norræna umhverfismerkið Svanurinn tekur einnig þátt.
Á ráðstefnunni verður ný rannsókn kynnt auk þess sem haldnar verða pallborðsumræður, vinnustofur og boðið verður upp á menningaratriði, meðal annars sýningu á endurhannaðri tísku og uppistand. Hugmyndin er að þátttakendur fái verkfæri og innblástur til þess að stuðla að sjálfbæru vali á öllum stigum ákvarðana.
Meðal þátttakenda eru stjórnmálamenn og ráðamenn, fyrirtæki, neytendur, fræðimenn, ungt fólk og aðrir hagsmunaaðilar.
Liður í norrænu framtíðarsýninni
Verkefnið Sustainable Living og ráðstefnan eru liður í framtíðarsýn Norrænu ráðherranefdarinnar um að Norðurlönd verði orðin sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.
Framtíðarsýnin er leiðarstefið í formennsku Svíþjóðar í Norrænu ráðherranefndarinni í ár. Í formennskuáætluninni segir meðal annars að Svíþjóð muni halda áfram vinnunni við að Norðurlönd skuli verð leiðandi í hinum grænu umskiptum og alþjóðlega samkeppnishæfu og félagslega sjálfbæru svæði.
Ráðstefnan er opin almenningi en skráningar er krafist til þess að taka þátt á staðnum í Kulturhuset í Stokkhólmi. Takmarkaður sætafjöldi.
Ráðstefnunni verður jafnframt streymt á netinu. Ráðstefnan fer fram á ensku.