Ný skýrsla tekur púlsinn á vinnu sveitarfélaga að sjálfbærnimálum

27.08.24 | Fréttir
Nordregios VSR-lansering i New York.

Nordregios VSR-lansering i New York

Ljósmyndari
UCLG

Skýrslan var kynnt í New York í júlí og þann 5. september verður hún kynnt fyrir Norðurlöndum á Ystad Summit.

Meirihluti norrænna sveitarfélaga vinnur markvisst að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun samkvæmt nýrri skýrslu frá Norrænu rannsóknastofnuninni í skipulags- og byggðamálum, Nordregio. Því fylgja þó áskoranir. Með skýrslunni fylgir verkfærakassi sem sveitarfélög geta nýtt sér í vinnunni að sjálfbærnimálum.

Skýrslan er sú fyrsta af sinni gerð og í henni er tekin staðan á því hvernig norræn sveitarfélög og héruð vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Skýrslan sýnir að norræn sveitarfélög taka vinnuna að heimsmarkmiðunum alvarlega. Yfir 95 prósent sveitarfélaga í Noregi og Svíþjóð sem tóku þátt í rannsókninni sögðust vinna markvisst að heimsmarkmiðunum. Í Danmörku var hlutfallið 80 prósent og í Finnlandi og á Íslandi 64 prósent.

Flest sveitarfélögin vinna auk þess heildstætt að þessum málum, með áherslu á efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbærni. Mörg þeirra flétta jafnframt heimsmarkmiðin inn í stefnuáætlanir sínar, skipulagsmál, fjárhagsáætlanir og innkaupastefnu.

Sveitarstjórnarstigið í forystu

„Skýrslan sýnir að sveitarstjórnarstigið er leiðandi í vinnunni að því að stuðla að sjálfbærni og breyta samfélaginu. Það er gert með því að flétta heimsmarkmiðin inn í stjórnunarlíkön og nota þau sem verkfæri til að ýta undir þverfaglegt samstarf og auka lífsgæði borgaranna,“ sagði Anna Karin Eneström, fastafulltrúi Svíþjóðar hjá Sameinuðu þjóðunum þegar skýrslan var kynnt í New York í júlí.

Áskoranir eru til staðar

Skýrslan sýnir þó einnig að mörg sveitarfélög standa frammi fyrir áskorunum í tengslum við vinnu sína að heimsmarkmiðunum. Meðal annars snúast þær um að bolmagn og pólitíska forgangsröðun vantar, ríkisstuðningur er ekki fyrir hendi í nægilegu magni og aðferðir og úrræði vantar.

Með skýrslunni fylgir gagnvirkur verkfærakassi á formi rafræns verkvangs, „Nordic Toolbox“. Hann hefur að geyma ýmsar aðferðir og aðgerðir sem norræn sveitarfélög hafa lagt til. Hugmyndin er að verkfærakassinn auðveldi miðlun reynslu og þekkingar á milli sveitarfélaga og ýti jafnframt undir aðgerðir annars staðar í heiminum.

Ungt fólk og borgarasamfélagið tekið með

Það er mikilvægur liður í norrænu skýrslunni að hún tekur einnig til ungs fólks og borgarasamfélagsins. Meðal annars inniheldur hún kafla eftirNordic Youth for Sustainability Network og Nordic Civil Society Network

Það tryggir að raddir ungs fólks og borgarasamfélagsins fái einnig að heyrast.

Líta má á skýrsluna sem hluta af starfi Norrænu ráðherranefndarinnar að Framtíðarsýn okkar 2030 um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Skýrslan var kynnt á viðburði hjá Sameinuðu þjóðunum í New York í júlí og verður kynnt á Norðurlöndum á Ystad Summit þann 5. september.

Viðburðurinn á Ystad Summit verður í beinu streymi hér:

Staðreyndir:

Skýrslan Nordic Voluntary Sub-National Review (VSR) er byggð á spurningalista sem sendur var til sveitarfélaga á Íslandi og í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi árið 2023, auk svipaðs spurningalista sem sendur var til danskra sveitarfélaga.

Auk spurningalistans voru tekin viðtöl við fulltrúa sambanda sveitarfélaga og héraða á Norðurlöndum.

Skýrslan var unnin í samstarfi Norrænu rannsóknastofnunarinnar í skipulags- og byggðamálum (Nordregio) og norrænna sambanda sveitarfélaga og héraða og var hún fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni.

Nordregio er norræn rannsóknarstofnun í Stokkhólmi sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina.

Tengiliðir:

Åsa Ström Hildestrand

+46 739281896

asa.hildestrand@nordregio.org

Louise Ögland

+46 736680934

louise.ogland@nordregio.org

Tengiliður