„Andstaða við jafnrétti er vel skipulögð“
Jafnréttismálaráðherrar Norðurlanda hittust í Ósló í dag, borg þar sem tveir voru skotnir til bana og 26 særðust á Pride-hátíð í sumar.
Dæmi um bakslagið, sem stundum getur haft í för með sér ofbeldi, sem ráðherrarnir vilja berjast gegn.
Þurfum að taka af allan vafa
„Við sjáum mikla afturför í jafnréttismálum og réttindum LGBTI fólks um allan heim en þetta á sér líka stað á Norðurlöndum. Við verðum að taka skýra afstöðu gegn því. Þess í stað eigum við að halda áfram á jákvæðri braut í jafnréttismálum,“ segir Anette Trettebergstuen, jafnréttisráðherra Noregs og gestgjafi á fundinum.
Stúlkur, konur og LGBTI fólk
Þegar fyrir ári síðan byrjuðu ráðherrarnir að ræða bakslagið í jafnréttismálum almennt og einkum þegar kemur að réttindum stúlkna, kvenna og LGBTI fólks.
Á undanförnu ári hafa norrænu jafnréttisráðherrarnir búið sig undir að takast á við bakslag og andstöðu.
Berjast verður gegn andstöðunni
„Pushing back the push-back, a Nordic Roadmap“ er yfirskrift tveggja ára áætlunar sem jafnréttisráðherrarnir samþykktu á fundi sínum í Ósló með fjárveitingu upp á 500 þúsund danskar krónur.
Í áætluninni skrifa ráðherrarnir: „Andstaða við jafnrétti, réttindi kvenna og stúlkna og jafnan rétt LGBTI fólks er vel skipulögð, vel fjármögnuð og vel samræmd.“
Samræmingin kom á óvart
„Það kom mér á óvart að sjá hversu vel skipulögð barátta gegn almennum mannréttindum er. Við sjáum þetta einnig í Finnlandi, þrátt fyrir að við séum lýðræðislegt réttarríki sem setur markið hátt í jafnréttismálum,“ segir Thomas Blomqvist, jafnréttisráðherra Finnlands.
Áætlunin gengur út á að tala oftar einum norrænum rími í jafnréttis- og réttindamálum og skapa þannig þrýsting í tengslum við alþjóðlegar viðræður og fundi.
Hlutverk Norðurlanda er mikilvægt
Hún býður einnig upp á tækifæri til að standa fyrir umræðum eða fræðsluefni, ef til vill í formi handbókar fyrir norræna sendiherra um allan heim með norrænum sjónarmiðum og dæmum.
„Það er mikilvægt að einmitt við á Norðurlöndum tökum þetta hlutverk að okkur vegna þess að við höfum mikinn trúverðugleika þegar kemur að jafnréttismálum og réttindum LGBTI fólks,“ segir Trine Bramsen, jafnréttisráðherra Danmerkur.