COP26: Norrænir forsætisráðherrar tilkynna um framlag frá Norðurlöndum til Climate Investment Coalition
Það mun krefjast töluverðra fjármuna að ná markmiðum Parísarsamningsins. Í því skyni að styðja við græn umskipti tilkynntu norrænir þjóðarleiðtogar ásamt einkareknum fjárfestingarsjóðum um 130 milljarða Bandaríkjadala sameiginlegt framlag í þágu hreinnar orku og loftslagstengdra fjárfestinga fyrir árið 2030 í gegnum norræna og breska lífeyrissjóði í norræna skálanum á loftslagsráðstefnunni COP26 í Glasgow.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, H.E Sauli Niinistö, forseti Finnlands, Bárður á Steig Nielsen, forsætisráðherra Færeyja, Múte B Egede, forsætisráðherra Grænlands, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar voru viðstödd viðburinn.
Norrænt samstarf eflir bandalagið
Norrænt samstarf hefur áður staðið fyrir og stutt við fjárfestingu norrænna lífeyrissjóða í Climate Investment Coalition. Í formennskutíð Danmerkur í Norrænu ráðherranefndinni hafa breskir lífeyrissjóðir bæst í hópinn svo sameiginleg skuldbinding nemur 130 milljörðum Bandaríkjadala fyrir árið 2030.
Norræna ráðherranefndin fjármagnar einnig hluta verkefnisins. Fjárstuðningurinn fer til áframhaldandi kynninga í gegnum Climate Investment Coalition til fleiri lífeyrissjóða og stofnanafjárfesta í því skyni að fá þá til liðs við verkefnið.
Við erum sterkari þegar við vinnum saman. Þegar norrænir þjóðarleiðtogar tilkynna um sameiginlegan stuðning við bandalag á borð við þetta, sem nær jafnt til opinberra fjárfesta sem einkaaðila, sjáum við raunverulegt gildi hins norræna samstarfs. Þátttaka stofnanafjárfesta og loftslagsfjárfestinga í einkageiranum skiptir höfuðmáli til að takast á við loftslagsvandann sem við okkur blasir og til að ná þeirri framtíðarsýn okkar að verða sjálfbærasta svæði heims fyrir árið 2030.
Taktu þátt í umræðunum á COP26
Fimmtudagurinn 11. nóvember er helgaður fjármálum í norræna skálanum í Glasgow og norrænu COP26 miðstöðinni í Helsingfors. Dagskrána í heild má sjá á vefsvæði okkar.
Allir viðburðir á netinu
Hefurðu ekki aðgang að COP26? Engar áhyggjur. Það er hægt að fylgjast með umræðunum á netinu í gegnum streymisgáttina We Don’t Have Time.