COVID-19 kemur í veg fyrir 72. þing Norðurlandaráðs á Íslandi

19.08.20 | Fréttir
Harpa
Photographer
Johannes Jansson/norden.org

Til stóð að 72. þing Norðurlandaráðs færi fram í Hörpu en því hefur nú verið aflýst vegna kórónufaraldursins.

Ekkert verður af því að stærsti pólitíski fundur ársins á Norðurlöndum, Norðurlandaráðsþingið, verði haldinn í október eins og fyrirhugað var. Forsætisnefnd ráðsins tók ákvörðun um þetta á fundi sínum þann 19. ágúst. Ástæðan er COVID-19-faraldurinn sem kemur í veg fyrir að hægt sé að skipuleggja og halda þingið samkvæmt áætlun.

Þing Norðurlandaráðs er yfirleitt haldið í 44. viku í því norræna landi sem fer með formennsku það árið. Því stóð til að halda þingið í Reykjavík ár.

„Ekkert kemur í stað þingsins sem slíks en við munum halda fjarfundi til að sinna hinu pólitíska starfi,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir forseti Norðurlandaráðs. Að sögn hennar liggur útfærslan ekki enn fyrir en nú fer skipulagningin af stað á fullu.

„Norðurlandaráð hefur haldið áfram pólitísku starfi sínu þrátt fyrir kórónuveiruna,“ segir forsetinn. „Okkur þykir miður að þetta hafi farið svona en við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að þetta hafi sem minnst áhrif á hina pólitísku ferla í norrænu samstarfi.“

 

Norðurlönd áfram á dagskránni

Þingmenn á Norðurlöndum eru vanir að taka þingvikuna frá og helga hana norrænum málefnum og forsætisnefndin boðar að svo skuli einnig vera í ár þrátt fyrir að sjálfu þinginu hafi verið aflýst.

„Það er mikilvægt að við nýtum okkur að Norðurlönd séu á dagskránni hjá öllum,“ segir forsetinn.

 

Verðlaunaafhending með sérstöku sniði

Alla jafna eru verðlaun Norðurlandaráðs afhent í tengslum við þingið. Silja Dögg lofar að verðlaunaafhending fari fram í ár þrátt fyrir að ekki verði af þinginu.

„Verðlaunin fimm verða afhent samkvæmt áætlun. Bókmennta-, barna- og unglingabókmennta-, kvikmynda-, tónlistar- og umhverfvisverðlaunin verða afhent í sjónvarpsútsendingu sem skipulögð verður í samvinnu við RÚV.“