Er þörf á samnorrænni stefnu í netöryggismálum?

20.12.22 | Fréttir
Erkki
Photographer
Lars Dareberg / norden.org
Ættu norrænulöndin að taka upp sameiginlega stefnu í netöryggismálum? Forsætisnefnd Norðurlandaráðs fjallaði um málið á fundi sínum í desember.

Uppfært 30. janúar 2023 Birt 20. desember 2022

„Netöryggismál eru mikilvægari en nokkru sinni. Á síðustu árum hefur alvarlegum netárásum fjölgað. Stríðið í Úkraínu hefur einnig á margan hátt bein áhrif á Norðurlöndin. Þess vegna köllum við eftir sameiginlegri stefnu í netöryggismálum á Norðurlöndum,“ segir Erkki Tuomioja, forseti Norðurlandaráðs.

Netöryggismál hafa verið ofarlega á baugi í norrænu varnarsamstarfi undanfarin ár. Samkvæmt framtíðarstefnu Nordic Defence Cooperation, Nordefco, fyrir 2025 eiga norrænu löndin að vinna að auknu viðnámi gegn netógnum. Sú vinna fer meðal annars fram í vinnuhópnum um netvarnir (Cyber Defence) og sérskipaða vinnuhópnum um netfræðslu (Cyber Education).

Finnar fara með formennsku í Norðurlandaráði árið 2022 og leggja áherslu á netöryggi. Tuomioja undirstrikar að netárásum hafi fjölgað og að stríðið í Úkraínu hafi áhrif á öryggismál á Norðurlöndum. Því kallar formennska Finnlands í Norðurlandaráði eftir sameiginlegri stefnu á sviði netöryggismála.

Netöryggi mikilvægt fyrir norræna nýsköpun

Ísland hefur sett sér stefnu í netöryggismálum fyrir 2022–2037 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun til að auka netöryggi á Íslandi. Yfirvöld hyggjast meðal annars halda stóra sameiginlega æfingu þar sem hugmyndin er að prófa viðbragðsgetu í sviðsmynd þar sem tenging við umheiminn hefur rofnað.

Forsætisnefndin bauð Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, til fundarins. Hún fer meðal annars með netöryggismál.

„Netöryggi er ekki bara öryggismál heldur forsenda þess að við getum nýtt kraftinn í norrænni nýsköpun til fulls. Við þurfum að vera meðvituð um netöryggismál og þekkingin og regluverkið þarf að vera til staðar svo við getum tryggt samfélagið til framtíðar. Þess vegna kallar Ísland eftir sameiginlegri norrænni stefnu í netöryggismálum,“ sagði Áslaug Arna á fundinum.

Áslaug Arna er jafnframt sammála Toumioja um mikilvægi aukins norræns samstarfs á sviði netöryggismála. Hún leggur einnig til að tekin verði upp sameiginleg norræn stefna til að efla samstarfið. Þá leggur hún áherslu á að netöryggi sé grundvallarþáttur í því að Norðurlönd bæti samkeppnishæfi sitt þegar kemur að norrænni nýsköpun.

„Tökum ákvörðun“

Áslaug Arna skorar á norrænu ríkisstjórnirnar að taka ákvörðun um sameiginlega norræna stefnu í netöryggismálum.

„Lögin eru þegar til staðar en við þurfum að taka ákvörðun í öllum norrænu löndunum. Þannig geta Norðurlönd verið í fararbroddi þegar kemur að samstarfi á sviði netöryggismála. Það er tímabært að taka upp netöryggisstefnu,“ sagði Áslaug Arna á fundinum.

Að frumkvæði finnsku formennskunnar lagði Norðurlandaráð í sumar fram fyrirspurn til norrænu ríkisstjórnanna um stöðu mála í netöryggismálum. Á desemberfundinum gafst tækifæri til að ræða sameiginlega netöryggisstefnu á grundvelli svarsins.

Fundurinn í danska þinginu í desember var síðasti fundur ársins þar sem Finnar gegndu formennsku. Árið 2023 gegna Norðmenn formennsku í Norðurlandaráði og stýra jafnframt fundum forsætisnefndarinnar.