Fjármálaráðherrar ræddu norrænan bankamarkað og verndarstefnu

24.03.17 | Fréttir
Finansministrar diskuterade nordisk bankmarknad och protektionism
Ljósmyndari
norden.org
Norrænu fjármálaráðherrarnir funduðu í Ósló þann 24. mars. Meginþema fundarins var þróun á norrænum bankamarkaði og málefni ESB/EES sem eru ofarlega á baugi, m.a. framtíð Evrópusambandsins, Brexit og vægi skilvirkra markaða fyrir lítil, opin hagkerfi á borð við þau norrænu.

Með umræðu ráðherranna um ástandið á norrrænum bankamarkaði var samstarfssamningi um bankaþjónustu yfir landamæri Norðurlanda ,sem undirritaður var í desember í fyrra, fylgt eftir Einnig komu ráðherrarnir inn á alþjóðlegar reglugerðir um fjármálamarkaði. Þá ræddu þeir síðasta peningaþvættishneykslið, sem margir norrænir bankar eru flæktir í. Ráðherrarnir voru á einu máli um að bankarnir ættu áfram að efla starf sitt á þessu sviði.

Annar mikilvægur umræðuliður varðaði hugsanlegar afleiðingar útgöngu Bretlands úr ESB.

„Það er engin spurning að Brexit mun hafa umtalsverðar afleiðingar fyrir norrænu löndin“, segir fjármálaráðherra Noregs, Siv Jensen, sem var fundarstjóri. „Það er sameiginlegur vilji okkar að halda samstarfi okkar áfram eins nánu og kostur er,“ heldur hún áfram.

Ráðherrarnir ræddu mikilvægi opinna markaða og alþjóðlegs viðskiptakerfis sem byggi á reglum fyrir hagvöxt og velferð. Hnattvæðingin hefur haft í för með sér ávinning á sviði velferðar, jafnt á alþjóðavettvangi sem fyrir hin litlu, opnu, norrænu hagkerfi. Fari verndarstefna vaxandi í heiminum kann það að hafa neikvæðar afleiðingar fyrir marga. Um leið er mikilvægt að fleiri öðlist hlutdeild í þeirri velferð sem fylgir hnattvæðingu og tækniþróun.

„Hin norræna reynsla er að skilvirkir markaðir, velferðarlausnir og skattkerfi eru miðlæg í þessu samhengi. Noregur mun hafa þessi norrænu sjónarmið í farteskinu á G20, þar sem landið verður gestur í ár,“ segir Siv Jensen. 

Ráðherrarnir skiptust einnig á skoðunum varðandi leiðir til að efla norrænt starf að loftslagsmálum og grænar fjármögnunarlausnir, meðal annars gegnum Norræna fjárfestingabankann. Ennfremur ræddu ráðherrarnir samnorrænar áskoranir i tengslum við sjálfbæran hagvöxt til langframa og atvinnustig.

Fjármálaráðherrarnir hittast árlega og ræða pólitísk mál og viðfangsefni sem eru ofarlega á baugi innan ramma ríkisstjórnasamstarfsins í Norrænu ráðherranefndinni.