Forsætisráðherrarnir: „Varnarsamstarfið verður eflt“

15.08.22 | Fréttir
fem statsministraer
Ljósmyndari
Hakon Mosvold Larsen/AFP/Ritzau Scanpix
Norrænt samstarf um öryggis- og varnarmál verður aukið. Það er niðurstaða fundar forsætisráðherranna í Ósló í dag. Einnig vilja forsætisráðherrarnir auka aðgerðir til verndar hafinu og vinna saman í tengslum við nýtingu vindorku í Norðursjó og á Eystrasalti.

„Aðildarumsókn Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu markar söguleg tímamót fyrir norræna öryggisstefnu og varnarsamstarf. Hún gerir okkur kleift að líta á varnir Norðurlanda og skuldbindingar sem að þeim lúta í stærra samhengi,“ sagði Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs að loknum fundi með kollegum sínum frá Svíþjóð, Íslandi, Finnlandi og Danmörku.

Öryggismál og græn umskipti

Á dagskrá sumarfundar forsætisráðherranna voru þrjú mikilvæg mál: Varnarsamstarfið, græn umskipti og hnignun hafsvæðanna sem umlykja Norðurlönd. Allt eru þetta mál sem eru svo aðkallandi og alvarleg að norrænt samstarf er nú mikilvægara en nokkru sinni.

Á það lögðu forsætisráðherrarnir áherslu á sameiginlegum blaðamannafundi.

Heimsókn Þýskalandskanslara

Fyrir hádegi komu forsætisráðherrarnir sér saman um sameiginlega yfirlýsingu um varnar- og öryggismál og eftir hádegi funduðu þeir með Olof Scholz, kanslara Þýskalands, til að ræða orkuöryggi og græna iðnþróun.

 

Hvað varnarmálum viðvék var einkum rætt um nánara samstarf þegar kemur að loftvörnum, dreifingu og lífsafkomu, ásamt sameiginlegum æfingum og menntun á Norðurlöndum með tilliti til Atlantshafsbandalagsins.

Endurnýjanlegir orkugjafar lykillinn að sjálfbærni

Norðmenn fara með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár og Jonas Gahr Støre forsætisráðherra nýtti hluta fundarins til að fylgja eftir framtíðarsýn forsætisráðherranna um norrænt samstarf; að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.

Meðal annars komu þeir sér saman um nánara samstarf um nýtingu vindorku í Norðursjó og Eystrasalti auk annarra endurnýjanlegra orkugjafa.

 

„Við þurfum að styrkja og vernda löndin okkar eftir fleiri leiðum. Norrænu löndin eiga að láta á það reyna að sýna heiminum að græn umskipti geti vel farið saman við efnahagslega þróun og fjölgun starfa,“ sagði Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar.

Málefni hafsins eru ekki bara umhverfismál

Forsætisráðherrarnir bentu á að hnignun líffræðilegrar fjölbreytni, mengun og loftslagsbreytingar ógni hafsvæðunum í kringum Norðurlönd og að mikilvægt sé að efla norrænt starf um sjálfbæra hafstjórnun.

 

 

„Við sjáum að loftslagsbreytingarnar hafa mikil áhrif á hafið og við verðum að horfa heildstætt á málin þegar við leitum lausna. Þetta er umhverfismál en það varðar einnig félagslega sjálfbærni og lífsafkomu í breiðum skilningi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands.