Forsætisráðherrarnir: Við þurfum að auka sameiginlegan neyðarviðbúnað

03.11.21 | Fréttir
statsministrar session 2021
Photographer
Norden.org
Norðurlöndin eiga að auka samstarf sitt um neyðarviðbúnað og annan viðbúnað. Norrænu forsætisráðherrarnir voru sammála um það þegar þau komu saman í Kaupmannahöfn á þingi Norðurlandráðs.

„Norrænt samstarf er tæki sem gerir norrænu löndunum kleift að auka viðbúnað sinn og þanþol. Með því að greina norrænt samstarf á sviði neyðarviðbúnaðar og annars viðbúnaðar byggjum við upp Norðurlönd sem eru skilvirk við alls konar aðstæður,“ sagði Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, á blaðamannafundi í Kristjánsborgarhöll á miðvikudagsmorgun.

Alls konar kreppur

Á fundinum voru norrænu forsætisráðherrarnir og oddvitar sjálfstjórna Álandseyja, Færeyja og Grænlands. Norðurlandaráðherra Svíþjóðar, Anna Hallberg, var staðgengill forsætisráðherra Svíþjóðar. 
Í sameiginlegri yfirlýsingu sinni leggja forsætisráðherrarnir áherslu á mikilvægi þess að búa sig undir alls konar neyðarástand og kreppur, hvort sem þær eru af völdum manna eða náttúru. Þetta felur til dæmis í sér úrræði til þess að tryggja aðgengi að hreinu vatni og öruggum matvælum – og nægilegum lækningabúnaði til þess að takast á við heimsfaraldur. Í yfirlýsingunni eru sömuleðis nefnd stafræn net og flutningsleiðir. 

  

Verðum að læra af reynslunni

„Heimsfaraldurinn hefur verið söguleg áskorun. Þar sem staðan er nú orðin betri verðum við að draga lærdóm af reynslunni. Við verðum að vera betur búin undir kreppur í framtíðinni. Við erum viss um að það muni koma fleiri kreppur, við vitum ekki enn hvernig kreppur en við verðum að vera undirbúin,“ sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.

Réttlát umskipti

Á fundi forsætisráðherranna gerði Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, grein fyrir framgangi vinnu að framtíðarsýn norrænu forsætisráðherranna og á blaðamannafundinum staðfestu þau þá ákvörðun sína að Norðurlönd yrðu sjálfbærasta svæði heims árið 2030.

„Við getum og eigum að vera í fararbroddi í grænum umskiptum og eigum að sýna fram á að umskiptin geti átt sér stað á réttlátan hátt,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands.