Hér eru handhafar norrænu matarverðlaunanna Emblu

Þrír af vinningshöfunum á DogA í Ósló.
Tilkynnt var um Embluverðlaunahafa 2021 í beinni útsendingu á DogA í Ósló á mánudagskvöld. Metfjöldi tilnefninga barst til Embluverðlaunanna 2021 og við val á vinningshöfum leit dómnefndin til þátta eins og sjálfbærni, innblásturs, frumleika, heiðarleika og norrænnar sjálfsmyndar. Verðlaunaflokkarnir leggja áherslu á hráefni, handverk, kynningarmál og fólk sem tekur þátt í norrænni matarmenningu.
Embluverðlaunin voru sett á stofn árið 2017 af sex norrænum landbúnaðarstofnunum með stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar til að vekja athygli á og breiða út þekkingu á norrænum matvælum.
Noregur og Danmörk hrepptu hvort þrenn verðlaun
Norðmenn og Danir stóðu uppi sem sigurvegarar í sex af alls sjö flokkum. Samkeppnin var hörð en allt að sjö tilnefningar voru innan hvers flokks.
Hér eru sigurvegararnir:
Norrænn matvælaframleiðandi 2021: Fredriksdal Kirsebærvin, Danmörku
Norrænn matarfrumkvöðull 2021: Andreas Sundgren, Brännland Cider, Svíþjóð
Norrænn matvælalistamaður 2021: Undredal stølsysteri, Noregi
Norrænn matvælamiðlari 2021: Det Grønne Museum, Danmörku
Norrænn matur fyrir marga 2021: The Junk Food Project, Danmörku
Norrænn mataráfangastaður 2021: Kvitnes gård, Noregi
Norrænn matur fyrir börn og ungt fólk 2021: Geitmyra Credo, Noregi
Um Embluverðlaunin
Sex norrænar landbúnaðarstofnanir standa að Embluverðlaununum sem eru að hluta til fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni í gegnum verkefnið Ný norræn matargerð. Markmiðið er að vekja athygli og áhuga á norrænni matarmenningu, einnig utan Norðurlanda. Emblaverðlaunin eru afhent annað hvert ár. Dómnefnd í hverju landi tilnefnir keppendur í hverjum flokki og norræn dómnefnd velur endanlega vinningshafa.