Vefþing: Nýjustu breytingar á norrænum næringarráðleggingum

18.05.22 | Fréttir
alt=""

Grøntsager

Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Væntanleg útgáfa norrænna næringarráðlegginga (NNR2022) verður nýjasta og ýtarlegasta norræna skýrslan um mataræði og heilsu. Í þessari fimmtu útgáfu viðmiðanna verður sjálfbærni í fyrsta sinn órofa hluti og mikil áhersla verður á loftslagið og umhverfið. Á vefþingi þann 25. maí verður farið yfir stöðuna og helstu viðburðir verkefnisins kynntir. Öll eru velkomin.

Norrænar næringarráðleggingar eru gott dæmi um svæðisbundið samstarf um viðmið fyrir ráðleggingar um mataræði og næringarinntöku. NNR mynda fræðilegan grunn fyrir innlend viðmið um næringargildi og mataræði í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð.


„Þetta er í fyrsta sinn sem loftslags- og umhverfismál eru hluti af innlendum viðmiðum. Áherslur verkefnisins eru á vísindaleg gæði, gagnsæi og lýðræðislega verkáætlun sem felur í sér nokkra opinbera samráðsfundi,“ segir prófessor Rune Blomhoff, sem fer fyrir vinnuhópnum sem ber ábyrgð á þróun ráðlegginganna.

Vertu með 25. maí og fáðu frekari upplýsingar

Viltu vita meira um viðmiðin og verkfæri sem tengjast bæði næringu og umhverfislegri sjálfbærni? Taktu þátt í vefþingi um stöðu mála í boði NNR2022-nefndarinnar til að fá að vita meira um aðferðafræðina sem stuðst er við í verkefninu, helstu viðburði á næstu mánuðum og hvernig þú getur tekið þátt. Jafnframt verða kynntar upplýsingar um útgáfu hinnar endanlegu NNR2022-skýrslu. Einnig verður boðið upp á spurningar.


„Við viljum að fólk taki þátt, hvort sem það eru fræðimenn, hagsmunaaðilar sem starfa í tengdum iðnaði, fyrir stjórnvöld eða samtök, eða einfaldlega almenningur,“ segir prófessor Blomhoff.

  • Hvenær: 25. maí, á milli kl. 8.00 og 9.30 að íslenskum tíma
  • Hvar: Á netinu

Hagsmunaaðilum boðið að segja sitt álit

Innan verkefnisins verða einnig haldnir opinberir samráðsfundir um vísindalegt bakgrunnsefni sem liggja mun til grundvallar fyrir leiðbeinandi viðmið um næringargildi (DRV) og mataræði (FBDG) í hinni endanlegu NNR2022-skýrslu.


NNR2022-nefndin hvetur hagsmunaaðila, vísindamenn og aðra áhugasama um að deila sýn sinni og athugasemdum um drög að köflum um vísindalegt mat á næringarefnum, fæðuflokkum og heilbrigðisþáttum. Fyrstu kaflarnir í NNR2022 eru nú aðgengilegir fyrir opinbert samráð. Samráðstímabilið fyrir hvern kafla verður átta vikur.

Um norrænar næringarráðleggingar

Samstarf sem stuðlar að betri samvinnu um næringu leikur lykilhlutverk í því að gera hollan mat aðgengilegan og eftirsóknarverðan. Frá því á níunda áratugnum hefur Norræna ráðherranefndin stutt við umfangsmikið svæðissamstarf um næringartengd málefni þar sem norrænu næringarráðleggingarnar hafa verið einn veigamesti þátturinn.


NNR2022-verkefnið er fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni og heilbrigðis- og matvælayfirvöldum á Norðurlöndum undir forystu norsku heilbrigðisstofnunarinnar. Yfir 400 vísindamenn koma að verkefninu sem er gríðarstórt og stendur í fjögur ár.