Hreyfanleiki Norðurlandabúa eykst enn frekar

07.02.19 | Fréttir
Islands samarbetsminister Sigurður Ingi Jóhannsson
Ljósmyndari
norden.org
Frjáls för milli landa er einn af hornsteinum norræns samstarfs og nú á að auðvelda fólki enn frekar að flytja til annars norræns ríkis til að starfa, reka fyrirtæki, stunda nám eða bara eiga þar heima. Þetta er meðal markmiða framkvæmdaáætlunar um hreyfanleika á Norðurlöndum sem samstarfsráðherrarnir samþykktu í Reykjavík 7. febrúar á fysta fundi sínum á formennskutíma Íslands.

Framkvæmdaáætlunin byggir að hluta á auknum stuðningi við fjöldamörg einstök verkefni og áætlanir sem styrkja hreyfanleika almennings og að hluta á að taka saman úrræði sem eiga að bæta úr aðstæðum til hreyfanleika og aðlögunar á Norðurlöndum, bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Framkvæmdaáætlunin tekur til tímabilsins 2019-2021.

„Norðurlöndin eru samþættasta svæði í heimi, engu að síður eru víða tækifæri til þess að bæta stöðuna enn frekar, einnig á okkar svæði,“ segir íslenski samstarfsráðherrann, Sigurður Ingi Jóhannsson, sem stýrir starfi samstarfsráðherranna árið 2019. „Aukinn hreyfanleiki styrkir auk þess norræna samkennd og eykur gagnkvæman tungumálaskilning á svæðinu,“ bætir hann við.

Framkvæmdaáætlunin tekur til allra málefnasviða ráðherranefndarinnar og áhersla er lögð á stafræna væðingu, viðurkenningu á menntun frá öðru norrænu ríki ásamt samstarf um innleiðingu ESB-löggjafar. 

„Mig langar sérstaklega að benda á að við stefnum að því að að ganga frá þeim innviðum sem þarf til þess að gera okkur kleift strax á árinu 2020 að nota rafræn auðkenni frá heimalandi okkar um öll Norðurlönd,“ segir Sigurður Ingi. „Mikilvægi þessara umbóta má líkja við vegabréfasambandið,“ segir hann. 

Svæði án landamæra fyrir ungt fólk

Í mörgum verkefnanna er sjónum sérstaklega beint að ungu fólki. Í framkvæmdaáætluninni er meðal annars aukinn stuðningur við skiptinámsáætlanirnar Nordic Master og Nordplus sem þegar gerir ár hvert 8.500 ungum Norðurlandabúum kleift að stunda nám í öðru norrænu ríki. Þá á að auðvelda ungu fólki að komast inn á vinnumarkaðinn utan heimalands síns. 

Við stefnum að því að að ganga frá þeim innviðum sem þarf til þess að gera okkur kleift strax á árinu 2020 að nota rafræn auðkenni frá heimalandi okkar um öll Norðurlönd.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Íslands

Í framkvæmdaáætluninni er undirstrikað sérstaklega hlutverk Stjórnsýsluhindranaráðsins í vinnunni við að rýðja úr vegi einstökum hindrunum sem varða hreyfanleika, svo kölluðum stjórnsýsluhindrunum, á svæðinu. 

Sömuleiðis er bent á mikilvægi þess að auka aðgang að upplýsingum um þá möguleika sem eru fyrir hendi á svæðinu. Upplýsingaþjónusta ráðherranefndarinnar, Info Norden og upplýsingaþjónusta landamærasvæðanna veita ár hvert hundruðum þúsunda Norðurlandabúa svör við spurningum sem varða möguleika á að koma sér fyrir í einu af norrænu grannríkjunum.