Ísland og Norðurlönd eru boðberar friðar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra á Íslandi, tók fyrir alvöru við stjórnartaumunum í dag og mun leiða Norrænu ráðherranefndina í gegnum árið 2023 ásamt hinum norrænu samstarfsráðherrunum.
Þegar Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, hafði boðið gesti velkomna kynnti Guðmundur Ingi formennskuáætlunina „Afl til friðar“:
Norðurlönd eru á meðal friðsælustu svæða í heimi og það er skylda okkar að halda mikilvægi friðar á lofti. Friður er forsenda mannréttinda, velferðar, kvenfrelsis og umhverfis- og loftslagsverndar, sem einkenna sameiginleg gildi okkar í norrænu löndunum.
Áhersla á friðarmál þar sem það á við
Markmið Íslands er að Norðurlönd séu borðberi friðar og að áhersla verði lögð á friðarmál þegar það á við í norrænu samstarfi, svo sem í tengslum við grundvallargildi Norðurlanda á borð við traust, öryggi, jafnrétti og lýðræði. Jafnframt mun Norræna ráðherranefndin taka þátt í að halda stóra alþjóðlega friðarráðstefnu í Reykjavík í október.
„Svona stór alþjóðlegur viðburður gefur okkur tækifæri til að bera út boðskapinn um mikilvægi friðar,“ segir Guðmundur Ingi.
Framtíðarsýn okkar 2030 liggur til grundvallar
Rétt eins og formennskuáætlun Noregs í fyrra stendur íslenska formennskuáætlunin á grunni framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2030 og þess markmiðs að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.