Katarina Frostenson hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir „Sånger och formler“

01.11.16 | Fréttir
Nordisk Råds litteraturpris 2016
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Sænski rithöfundurinn Katarina Frostenson hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir ljóðabókina „Sånger och formler“ á verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.

Handhafi verðlaunanna frá því í fyrra, Kim Leine, afhenti Katarinu Frostenson verðlaunin og verðlaunaféð, 350 þúsund danskar krónur, í tónleikahúsi danska ríkisútvarpsins (DR).

Rökstuðningur

Handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016 er ljóðskáld með langan feril og margþætt höfundarverk að baki. Í vef samtíma og goðsagna, nánasta umhverfis og víðrar veraldar, áþreifanlegs hvunndags og ferðalaga um minningar, bókmenntir og söngva, laðar hún heildina fram gegnum smáatriðin. Ljóðabókin Sånger och formler eftir Katarinu Frostenson er frásögn af hinum líkamlegu og andlegu opinberunum lífsins, um hið smáa í því stóra og um manneskjuna í heiminum. Í ljóðum hennar – sem eru sveigjanleg, þrátt fyrir stranga uppbyggingu – eiga stöðugar breytingar sér stað, og í þeim kristallast hið margþætta undur lífsins.

Vefvarp