Kirsten Thorup hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2017

01.11.17 | Fréttir
Vinnare av Nordiska rådets litteraturpris 2017
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Danski höfundurinn Kirsten Thorup tók við bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna „Erindring om kærligheden“ („Minning um ástina“, óþýdd) við verðlaunaathöfn Norðurlandaráðs í Finlandia-húsinu í Helsinki. Verðlaunin að upphæð 350 þúsund DKK voru afhent af Sunnu Dís Másdóttur, formanni dómnefndar.

Rökstuðningur dómnefndar:

Handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2017 hefur sent frá sér fjölda frábærra skáldsagna með samfélagslega skírskotun. Í skáldsögunni Erindring om kærligheden eftir Kirsten Thorup er dregin upp mynd af Töru, sem réttir hvað eftir annað hjálparhönd til hinna jaðarsettu í samfélaginu. Án þess að hafa ætlað sér það eignast hún dótturina Siri, en það verkefni reynist henni erfitt. Hér er rakin átakanleg og miskunnarlaus atburðarás í blæbrigðaríkri frásögn þar sem tekist er á við viðfangsefni á borð við réttindi og skyldur, hið persónulega og hið pólitíska – og ekki síst styrk og gjald ástarinnar. Erindring om kærligheden er kolsvört skáldsaga, full visku. Hún leggur net sín í hið sammannlega dýpi á þann hátt sem aðeins sannar bókmenntir geta gert.

Nánari upplýsingar um Erindring om kærligheden á síðu bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Nánari upplýsingar um verðlaun Norðurlandaráðs