2017 Kirsten Thorup, Danmörk: Erindring om kærligheden

2017 Kirsten Thorup, Danmark: Erindring om kærligheden
Billedet må kun benyttes i forbindelse med Nordisk Råds priser. Fotografens navn skal nævnes.

Um höfundinn

Fyrsta bók Kirsten Thorup var ljóðabókin Indeni – Udenfor sem kom út 1967. Hún á því 50 ára rithöfundarafmæli á þessu ári. Eftir Kirsten Thorup liggja margs konar bækur en hún hefur fyrst og fremst sett mark sitt á danskar samtímabókmenntir með allmörgum mikilvægum og samfélagslega greinandi skáldsögum eins og Lille Jonna (1977), Himmel og helvede (1982), Den yderste grænse (1987) og Bonsai (2000). Skáldsögurnar hafa verið fjölmörgum lesendum sínum spegill þar sem þeir hafa (eins og Hamlet Shakespears segir) átt þess kost að sjá birtingarmynd samtímans ásamt þeim öflum sem hafa skapað þessa birtingarmynd. Í skáldsögunum er flókið líf einstaklingsins greint ásamt félagslegum samböndum hans sem eru jafnflókin, bæði sambönd hans við það fólk sem stendur honum næst og við samfélagið sem jafnan gerir miklar kröfur í sögum Kirsten Thorup. Skáldsögurnar gefa oft því fólki rödd sem annars heyrist yfirleitt ekki hátt í, fólki sem lifir á jaðri samfélagsins, fólki sem er á einhvern hátt „rangt“.

Um vinningsverkið

Erindring om kærligheden er kolsvört skáldsaga, full visku. Hún leggur net sín í hið sammannlega dýpi á þann hátt sem aðeins sannar bókmenntir geta gert. Aðalpersóna bókarinnar, Tara, stendur frammi fyrir því að slá í gegn í hlutverki Hamlets í framúrstefnulegri uppsetningu á verkinu en dregur sig út úr verkefninu til þess meðal annars að kasta sér út í skipulagt hjónaband með hælisleitanda, og líf Töru verður þaðan í frá eins og stefnulaus þeysireið. Hún er, eins og Hamlet, á valdi þess að hika alltaf þegar kemur að hennar eigin lífi. Aftur á móti réttir hvað eftir annað hjálparhönd til hinna jaðarsettu í samfélaginu - jafnvel þótt hún sé á sinn hátt alveg eins jaðarsett og hjálparlaus og fólkið sem hún hjálpar. Tara eignast án þess að ætla sér það dótturina Siri en það verkefni reynist henni erfitt. Í sögunni er sambandi þeirra fylgt eftir um árabil: Rakin er átakanleg og miskunnarlaus atburðarás í blæbrigðaríkri frásögn þar sem tekist er á við viðfangsefni á borð við réttindi og skyldur, hið persónulega og hið pólitíska – og ekki síst styrk og gjald ástarinnar. Sagan nær að ystu mörkum og út yfir þau. Tara endar á götunni í Kaupmannahöfn samtímans. En sagan endar ekki hér. Á meðan er Siri orðin virk í pólitík og gjörningalistamaður og í Erindring om kærligheden má einnig lesa um sátt sem verður til í móður/dóttur-gjörningi þar sem hin femíniska vídd leysir þetta erfiða samband úr viðjum. Það er þó bæði rétt og rangt að skilgreina Erindring om kærligheden sem móður/dóttur-sögu. Rétt vegna þess að samband Töru og Siri byggir á ást án skilyrða. Rangt vegna þess að með breiðri og blæbrigðaríkri samtímaskírskotun sinni fjallar sagan einnig um öll þau sambönd sem hafa áhrif á líf fólks. Kannski ekki síst þau sambönd sem fólk hlífir sér við að mynda – t.d. samband við Rúmeníubúa sem betlar alla daga fyrir framan búðina.

Erindring om kærligheden

Útgáfa: Forlaget Gyldendal 

Útgáfuár: 2016

Hér er rökstuðningur dómnefndarinnar

Handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2017 hefur sent frá sér fjölda frábærra skáldsagna með samfélagslega skírskotun. Í skáldsögu Kirsten Thorup, Erindring om kærligheden er dregin upp mynd af Töru sem hvað eftir annað réttir hinum jaðarsettu í samfélaginu hjálparhönd. Án þess að hafa ætlað sér það eignast hún dótturina Siri en það verkefni reynist henni erfitt. Hér er rakin átakanleg og miskunnarlaust frásögn þar sem tekist er á við viðfangsefni á borð við réttindi og skyldur, hið persónulega og hið pólitíska – og ekki síst styrk og gjald ástarinnar. Erindring om kærligheden er kolsvört skáldsaga og full visku. Hún leggur net sín í hið sammannlega dýpi á þann hátt sem aðeins sannar bókmenntir geta gert.