Konur í meirihluta á stafrænum vinnumarkaði

27.11.20 | Fréttir
En kvinna titar upp över en dator
Photographer
Unsplash
Konur standa sig betur en karlar á þeim hluta norræna vinnumarkaðarins sem einkennist af stafrænni þróun og örri tækniþróun. Í þjónustugeiranum þar sem konur eru í meirihluta hefur hingað til tekist vel að auka hæfni og hækka laun. Ný norræn rannsókn sýnir hins vegar að hætta er á að andstæður aukist í atvinnugreinum þar sem karlar eru hefðbundið í meirihluta.

Örri þróun sérhæfðrar stafrænnar tækni hefur oft verið lýst sem umbyltingu fyrir atvinnulífið. Sagt er að vélmenni og gervigreind boði lok hins hefðbundna vinnumarkaðar. 
En ný norrænni vinnumarkaðsrannsókn skýrir þessa mynd - en slær síðast en ekki síst á óvissunni vegna þessa.

Munur milli Norðurlanda

„Ekki er um að ræða umbyltingu enn sem komið er. Tækniþróunin breytti vinnumarkaðinum en breytingarnar eiga sér stað jafnt og þétt en ekki með byltingu. Við sjáum líka mun milli atvinnugreina, milli Norðurlandanna og milli vinnumarkaðar kvenna og karla,“ segir Bertil Rolandsson, vinnumarkaðsfræðingur við Háskólann í Gautaborg. 

Hann og stór hópur vísindafólks hefur dregið saman í nýrri skýrslu nýja þekkingu á því hvernig stafræn þróun hefur áhrif á vinnumarkaðinn. Skýrslan er liður í þriggja ára samnorrænni rannsóknaráætlun um atvinnulif framtíðar.

Stafræn þróun hefur ekki fækkað störfum

Vísindafólkið kemst að því að stafræn þróun síðustu 30 ár hafi ekki fækkað störfum eða dregið úr fjölgun starfa á Norðurlöndum í heild, jafnvel þótt nokkrar atvinnugreinar hafi tekið á sig högg. 
Í stórum dráttum hafa störf í þjónustu komið í staðinn fyrir störf sem hafa horfið í framleiðslu. Fjórir fimmtu hlutar starfa á Norðurlöndum eru á sviði þjónustu og konur hafa fyrst og fremst notið góðs af þessum vexti. 

Þjónustugeirinn heldur áfram að vaxa

„Þjónustugeirinn hefur bjargað okkur þegar kemur að fjölda starfa og við teljum að sú þróun muni halda áfram. Um leið er þetta sá hluti vinnumarkaðarins þar sem konur eru oft í meirihluta,“ segir Bertil Rolandsson. 

Erfitt er að hagræða burt störfum sem fela í sér einhverskonar samband við viðskiptavini, sömuleiðis störf sem krefjast lögfræðilegrar kunnáttu, þróun þjónustu og samskipti. 

Munu andstæður aukast?

Alþjóðlegar vinnumarkaðsrannsóknir vara yfirleitt við því að stafræn þróun muni auka andstæður á vinnumarkaði, nánar tiltekið skapa vinnumarkað sem samanstendur af há- og láglaunuðu fólki en engri millistétt. 


Talið er að þörf fyrir ræstingar og önnur einföld störf í þjónustugeiranum verði alltaf til staðar og sömuleiðis störf sem krefjast mikillar hæfni, til dæmis á sviði vöruþróunar.


Á hinn bóginn muni þróunin bitna á millistétt embættismanna, svo sem í stjórnun, tilteknum störfum innan bankanna og störfum á sviði flutninga og birgðahalds.

Tilhneiging til aukinna andstæðna í Danmörku

Fram kemur í skýrslunni að þróunin í átt að auknum andstæðum er greinilegust í Danmörku.

 
Í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð einkennist þróunin fremur af uppfærslu starfa sem þýðir að þeim störfum fjölgar þar sem þörf er á aukinni hæfni. Störfum þar sem þörf er fyrir minni hæfni fækkar. 


„Á Norðurlöndum er hefð fyrir margþættu framboði menntunar. Á mörgum vinnustöðum er fjárfest í hæfniþróun og ýmsum aðilum er boðið að taka þátt í þeirri vinnu,“ segir Bertil Rolandsson.

Uppfærsla þjónustugeirans

Í skýrslunni kemur fram að uppfærsla á sér bæði stað í opinbera geiranum og í framleiðslu – en að þjónustugeirinn einkennist einnig af uppfærslu hæfni og launa.


Vísindafólkið hefur skoðað nánar hvernig áhrif stafrænnar þróunar eru á hefðbundnar þjónustugreinar eins og smásölu, umönnun aldraðra og bankageirann.

Þessi þrjú svið eiga sameiginlegt að stafræn tækni leiðir til betri starfa sem eykur eftirspurn eftir störfunum. 
Samtímis leiða þessi betri störf til aukinna krafna um meiri hæfni þeirra sem starfa á þessum sviðum.

Hvar fær fólk með litla menntun störf í framtíðinni?

„Þjónustugeirinn hefur bæði gegnt mikilvægu hlutverki við að ráða fólk með litla menntun til starfa – og að auka hæfni starfsfólks. Umfram allt hefur opinberi geirinn staðið sig vel á þessu sviði.


Þau áhyggjuefni sem vísindafólkið sér helst í framtíðinni er hvort þjónustugeirinn muni áfram ná að taka við fólki með litla menntun. Í ljósi þess að tækniþróun leiðir af sér fækkun starfa í framleiðsluiðnaði þar sem karlar hafa verið í meirihluta mun áframhaldandi gott atvinnustig á Norðurlöndum ráðast af því hvað gerist í þjónustugeiranum. 

Áskorun í stafrænni verslun

„Ef umfangsmikil stafræn þróun verður á störfum á sviði smásölu og flutningum verður áskorunin meiri. Þá mun þjónustugeirinn eiga í vanda með að ná til þeirra sem missa vinnuna á sviði framleiðslu og andstæður munu aukast í greinum þar sem karlar hafa verið í meirihluta.“


Bertil Rolandsson telur að norræna vinnumarkaðslíkandið hafi hjálpað norrænu löndunum í gegnum langt tímabil stafrænnar þróunar með minni óvissu en í öðrum heimshlutum 

Virk atvinnustefna mýkir umskiptin

„Þróunin hefur líklega verið átakameiri og skrykkjóttari í öðrum löndum. Okkur hefur tekist á Norðurlöndum að hjálpa fólki að taka á umskiptunum með menntun og virkri atvinnustefnu. Þetta skapar skilning hjá fólki fyrir því að umbreyting sé nauðsynleg til þess að halda í velferðina,“ segir Bertil Rolandsson.