Tækniþróun kallar á fleiri konur

04.04.19 | Fréttir
Ylva Johansson på arbetslivsministermöte
Ljósmyndari
Bigs Gunnarsson
Þörf verður á fleiri tæknifræðingum og verkfræðingum úr röðum kvenna á vinnumarkaði framtíðarinnar. Okkur er ekki til setunnar boðið ef ný tækni á ekki að mótast af körlum einum saman. Norrænu vinnumálaráðherrarnir kynntu rannsóknarverkefni sem á að veita svör við því hvernig jafna megi kynjahlutföll meðal þeirra sem hefja nám í verkfræði og tæknifræði.

Nú þegar er skortur á verkfræðingum og sérfræðingum í upplýsingatækni á norrænum vinnumarkaði. Auk þess bendir þróun stafrænnar væðingar og gervigreindar, notkun vélmenna og líftækni til þess að mennta þurfi mun fleiri á þessum sviðum.

Frammistaða stúlkna betri

Mikilvægt er að átta sig á orsökum þess að stúlkur og konur á Norðurlöndum velja ekki æðri menntun eða starfsframa í náttúruvísindum, stærðfræði og tæknigreinum.

Þrátt fyrir að stúlkur standi sig eins vel ef ekki betur en strákar í náttúruvísindum og tæknigreinum í grunnskólum og framhaldsskólum velja fáar þeirra háskólanám í umræddum greinum.

Fyrir vikið eiga konur á hættu að missa af atvinnutækifærum í starfsgreinum framtíðarinnar.

Tjón samfélagsins

„Fyrir samfélagið er það mikið tap að geta ekki notið hugsanlegs mannauðs kvenna. Við verðum að hvetja efnilegar stelpur til að nema náttúruvísindi, stærðfræði og tækni, Það er hagur þeirra sjálfra en ekki síður atvinnugreinarinnar og samfélagsins,“ segir Ylva Johansson, vinnumálaráðherra Svíþjóðar.

Nýja norræna rannsóknarverkefnið á meðal annars að kanna ástæður þess að námsval er enn kynjað á Norðurlöndum og leita góðra dæma þar sem tekist hefur að ráða bót á því. 

Kynjaskiptur vinnumarkaður

Verkefnið kannar einnig starfsframaleiðir í hátæknigreinum, hvernig fólki í náttúruvísindum, stærðfræði og tækni tekst að samræma atvinnu og fjölskyldulíf og hvort vinnuumhverfið er opið jafnt konum og körlum.  

„Jafnrétti á vinnumarkaði er undir því komið að okkur takist að rétta af kynjahalla í ákveðnum starfsgreinum,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra Íslands.

NIKK, norræna upplýsingaveitan um kynjafræði, vinnur verkefnið að beiðni ráðherranefndanna um menntamál, vinnumál og jafnréttismál og á því að ljúka fyrir árslok 2020.

Tengiliður