Lækkaður byggingarkostnaður með norrænni samvinnu

29.05.18 | Fréttir
Byggeplads i Reykjavik
Ljósmyndari
Yadid Levy / Norden.org
Húsnæðismálaráðherrar Norðurlandanna hittust á þriðjudag til að ræða aukna samræmingu í byggingarreglum og -stöðlum á svæðinu. Ráðherrarnir lýstu yfir vilja til þess að auka samstarf milli yfirvalda í ríkjunum, setja af stað rannsóknir á þessu sviði og efla norrænt tengslanet innan byggingariðnaðarins í þeim tilgangi að styðja við samræmingu.

– Við viljum að byggingarmarkaðurinn á Norðurlöndum verði sá samþættasti í heimi. Við viljum auðvelda fyrirtækjum á Norðurlöndunum að byggja þvert á landamæri, til að byggja megi betri og ódýrari byggingar um öll Norðurlöndin, segir Peter Eriksson, ráðherra húsnæðismála og stafrænnar þróunar í Svíþjóð, en hann stóð fyrir fundi húsnæðismálaráðherranna í Stokkhólmi. Svíar gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.

Samkvæmt skýrslu frá Nordisk Innovation má áætla að árlegur viðbótarkostnaður við nýbyggingar sem rekja má til ólíkra byggingarreglna milli landa, nemi á bilinu 40 til 60 milljónir evra í Svíþjóð einni. Þá hefur sýnt sig að aukin samhæfing getur leitt til samþættari atvinnu- og vörumarkaðar og haft í för með sér lægri kostnað fyrir bæði fasteignaeigendur og byggingarfyrirtæki, sem og hið opinbera.

Samkvæmt sænsku húsnæðisstofnuninni er fyrirséð þörf fyrir um 600.000 nýjar íbúðir í Svíþjóð á tímabilinu 2016 til 2025 og ráðherrarnir telja mikil tækifæri felast í því að auðvelda byggingaraðilum að byggja þvert á landamæri.

Í yfirlýsingunni biðla húsnæðismálaráðherrarnir til Norrænu ráðherranefndarinnar um að kanna hvernig auðvelda megi samræmingarferlið og Dagfinn Høybråten, framkvæmdarstjóri ráðherranefndarinnar, telur það sjálfsagt.

– Yfirlýsingin er í samræmi við þá ósk forsætisráðherranna að Norðurlönd verði samþættasta svæði í heimi. Hún styður líka við þá vinnu sem þegar fer fram innan Stjórnsýsluhindranaráðsins, en þar er meðal annars unnið að sveigjanlegri skattaskilyrðum og að starfsnám verði metið þvert á landamæri, segir Høybråten. Í júní mun hann setja fram áætlun fyrir norrænu samstarfsráðherranna um aukinn hreyfanleika milli Norðurlandanna.

Byggingarreglur tilgreina þau lágmarksskilyrði sem bygging þarf að uppfylla. Þar að auki þarf að sjá til þess að viðhald sé nægilegt, svo að byggingin uppfylli þessi skilyrði út allan lífstíma sinn. Norrænu ráðherrarnir sjá í slíkri langtímasamvinnu tækifæri til þess að draga úr losun koltvísýrings á öllum stigum nýbyggingar; í vali á byggingarefnum en einnig á rekstrar- og viðhaldstímabilinu. Aukin notkun sjálfbærra byggingarefna, eins og viði, er einnig í samræmi við umhverfismarkmið og styrkir samkeppnisstöðu.

Tengiliður