Mikilvægt skref í samgöngumálum Norðurlanda

10.04.18 | Fréttir
Tog
Ljósmyndari
Yadid Levy/Norden.org
Þingfulltrúar á Þemaþingi Norðurlandaráðs samþykktu að mæla með því að norrænu ríkisstjórnirnar auki samstarf sitt á sviði samgöngumála og innviða. „Þetta er mikilvægt skref fyrir áframhaldandi hagvöxt á Norðurlöndum,“ segir Stein Erik Lauvås fulltrúi í Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndinni.

Íbúar Norðurlandanna eru um 27 milljónir og efnahagslegur styrkur þeirra er á pari við Rússland, Brasilíu og Kanada. Auk þess eru Norðurlöndin helstu viðskiptaþjóðir hver annarrar. Viðskipti milli Norðurlandanna innbyrðis eru meiri en viðskipti þeirra við Kína, Indland, Rússland, Brasilíu, Bretland, Frakkland og Bandaríkin samanlagt.

Um 70.000 Norðurlandabúar ferðast reglulega yfir norræn landamæri til vinnu sinnar og 5000 manns flytjast milli norrænna ríkja í hverjum mánuði. Allt þetta sýnir að Norðurlöndin þurfa að treysta mjög á greið tengsl sín á milli til þess að daglegt líf gangi vel og ótruflað. Í skýrslu sem kynnt var í janúar var því lýst hvernig norrænu ríkin geta unnið betur saman að því að leysa vandamál sem tengjast samgönguinnviðum og ná yfir landamæri.

15 tillögur

Hagvaxtar- og þróunarnefnd lagði á grundvelli skýrslunnar fram 15 tillögur að því hvernig styrkja mætti norrænt samstarf á þessu sviði. Norðurlandaráð stendur sameinað að baki tillögunum sem nú verða sendar áfram til Norrænu ráðherranefndarinnar.

„Það var ánægjulegt að Norðurlandaráð stóð einhuga að baki þeim tillögum sem nefndin lagði fram. Það veitir aukinn styrk fyrir vinnuna sem framundan er við að hafa áhrif á þjóðþingin og ráðherrana sem hafa það hlutverk að þróa samgöngustefnuna á Norðurlöndum,“ segir Stein Erik Lauvås.

Samgöngur og samgönguinnviðir eru æðakerfi nútímasamfélags. Atvinnulífið á Norðurlöndum hefur lengi lýst eftir betra samgöngukerfi milli Norðurlandanna. Í skýrslunni kemur fram að norrænt samstarf á sviði samgöngumála hafi einkennst af orðum fremur en gjörðum. Skipulag hvers lands fyrir sig á þessu sviði skorti nánast alveg samhengi þvert á landamæri. Í skýrslunni er einnig staðfest að fyrri rök um að munur sé mikill milli landanna séu ekki í samræmi við raunveruleikann.

Ráðherranefnd um samgöngumál

Meðal tillagnanna 15 sem nú hafa verið samþykktar bendir Lauvås sérstaklega á þörfina fyrir samræmingu á skipulagsmálum ásamt mismunandi leiðum við að fjármagna skipulag þannig að það stöðvist ekki vegna mismunandi starfshátta í löndunum. Norðurlandaráð sér fyrir sér norrænan fjárfestingasjóð sem á að tryggja að starfið stöðvist ekki og að Ráðherranefnd um samgöngumál verði endurreist.

„Ef Norræna ráðherranefndin um samgöngumál verður endurreist mun það tryggja að að verkefni sem taka til tengsla yfir landamæri munu ganga hraðar fyrir sig,“ segir Lauvås að lokum.