Nefnd: Alþjóðlegir íþróttaviðburðir eru norrænt mál

14.07.22 | Fréttir
Fotbolls-EM 2022
Photographer
Franck Fife/AFP/Ritzau Scanpix

Úr leik Svíþjóðar og Sviss á EM í knattspyrnu 2022 í Englandi. Svíþjóð fór með sigur af hólmi, 2-1.

Norðurlönd verða að axla aukna ábyrgð þegar kemur að alþjóðlegum íþróttaviðburðum. Það á jafnt við um sameiginlegar umsóknir og framkvæmd viðburða en einnig þegar norrænu löndin taka þátt á mótum í öðrum löndum. Þetta segir þekkingar- og menningarnefndin sem ítrekar tilmæli sín til ráðherranna um norræna stefnu.

Þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs er ekki ánægð með svar menningarráðherranna við tilmælum nefndarinnar um norræna stefnu varðandi stóra sameiginlega íþróttaviðburði. Ráðherrarnir vilja ekki aðhafast frekar í tengslum við tillöguna og segja þetta nokkuð sem eigi að vera á vegum sambanda landanna og að nú þegar sé fyrir hendi samstarf á milli ákveðinna sambanda.

„Samstarf og stefna er ekki það sama. Við í nefndinni erum sammála ráðherrunum um að samstarfið skuli eiga sér stað með viðkomandi aðilum á landsvísu en þegar kemur að því að vinna norræna stefnu teljum við þörf á pólitískri samræmingu og stuðningi frá hinu opinbera norræna samstarfi. Þá ábyrgð getum við ekki lagt á herðar íþróttasamtakanna á Norðurlöndum,“ segir May Britt Lagesen, þingmaður úr flokkahópi jafnaðarmanna.

Á sumarfundi sínum sem haldinn var á Íslandi ákvað nefndin að óska eftir pólitísku samráði um málið á samráðsfundi með menningarráðherrunum í haust.

Nýtt samstarf og sjálfbærir viðburðir

Nefndin hefur fjallað um norrænt samstarf á þessu sviði í mörg ár og í sameiginlegri yfirlýsingu árið 2019 lýsti hún stuðningi við sameiginlega umsókn Norðurlanda um að halda HM kvenna í knattspyrnu 2027. Í tengslum við undirbúning málsins varðandi samnorræna stefnu var tillagan send til umsagnar til nokkurra íþróttasamtaka í norrænu löndin sem öll studdu málið. Nefnd voru tækifæri til útskipta og nýrra samstarfsleiða, einnig á meðal barna og ungmenna, sem og samnorrænt gildismat og getan til að halda efnahagslega og félagslega sjálfbæra viðburði. Norrænt samstarf skapar einnig tækifæri fyrir alþjóðlegrar ímyndarsköpunar og nýrrar upplifunar fyrir áhorfendur.

Samnorræn gildi

Að mati nefndarinnar á stefnan ekki aðeins að fjalla um sameiginlega viðburði heldur eiga Norðurlönd einnig að axla aukna ábyrgð þegar kemur að aðstæðum á alþjóðlegum íþróttaviðburðum.

„Nú horfum við á norrænar landsliðskonur á EM kvenna í knattspyrnu og síðar í ár hefst HM karla í Dubai en lýðræði og málfrelsi hefur verið í deiglunni í tengslum við mótið. Við í nefndinni álítum að Norðurlönd verði að vísa veginn á alþjóðavettvangi með sameiginlegum lýðræðislegum gildum okkar og standa í sameiningu vörð um alþjóðasamninga og mannréttindi á tímum sem einkennast af óróleika og stríði. Samnorræn stefna getur einnig stuðlað að því,“ segir Camilla Gunell, formaður þekkingar- og menningarnefndar Norðurlandaráðs
 

 

 

Contact information