Áhugi á að koma á fót norrænni kennslustofnun fyrir tónlistarnema

04.11.21 | Fréttir
Musiker
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Börn og ungmenni eiga að fá tækifæri til þess að koma saman og iðka tónlist þvert á Norðurlönd. Það getur bæði sameinað þau og bætt aðstæður allra ungra tónlistarnema.

Á fundi Norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar þingi Norðurlandaráðs á þriðjudaginn var samþykkt að leggja til við Norrænu ráðherranefndina að komið verði á fót norrænni kennslustofnun fyrir tónlistarnemendur. Markmiðið er að skapa ungu tónlistarfólki frá öllum Norðurlöndum betri skilyrði en nú eru fyrir hendi til þess að þróa hæfileika sína á sviði hljómsveitartónlistar og tónsmíða. Vakin er athygli á að í hverju landi fyrir sig leika fá ungmenni á blásturshljóðfæri og að samnorræn menntun gæti bæði sameinað þau og tryggt þeim betri skilyrði.

Við eigum að veita tónlistarnemum góðar aðstæður til þess að iðka og þroska þekkingu sína hér á Norðurlöndum. Nefndinni er umhugað um að tryggja meiri og betri þróun hæfileika. Það snýst bæði um gleði og hæfileika unga fólksins á sviði tónlistar en einnig um að tryggja grundvöll fyrir nýliðun í hljómsveitum þannig að við getum öll notið góða af kunnáttu þeirra.

Kjell Arne Ottosson, formaður Þekkingar- og menningarnefndar

Að sænskri fyrirmynd

Lagt er til að námið verði þróað í samstarfi við tónlistarakademíur á öllum Norðurlöndum og er fyrirmyndin sótt í sænsku tónlistarkennslustofnunina NCM (Nationellt centrum för musiktalanger). NCM býður börnum og ungmennum á aldrinum 10-18 ára að taka þátt í þrenns konar námi: opnum námskeiðum, opnu námi og námi fyrir hæfileikaríka nemendur. Opnu námskeiðin eru fyrir alla sem hafa nokkurra ára reynslu af hljóðfæraleik. Krafist er inntökuprófs í opna námið en til að komast í nám fyrir hæfileikaríka nemendur þarf að fara í gegnum sérstakt umsóknarferli. Boðið er upp á allt námið bæði í staðnámi og á netinu og það er ókeypis.