Nefnd: Bjóðum ungmennum upp á meiri Norðurlönd í skólanum!
Tillaga nefndarinnar sem naut mikils stuðnings á fundinum á þriðjudag snýst um að fylgja eftir þeim markmiðum sem sett voru í „Yfirlýsingu um málstefnu Norðurlanda" frá 2006.
„Með þessari tillögu viljum við fara í saumana á aðgerðum ráðherranna á þessu sviði, bæði því sem þegar hefur verið gert og þeim aðgerðum sem framundan eru. Fimmtán ár eru síðan fyrsta yfirlýsingin um málstefnu Norðurlanda leit dagsins ljós og nú stöndum við frammi fyrir því að ráðgert er að skera niður í norræna tungumálasamstarfinu um rúm 20 prósent árið 2022. Það vekur ugg,“ segir Kjell-Arne Ottosson, formaður nefndarinnar. Hann heldur áfram:
„Í starfi okkar að því að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi skiptir sköpum að við skiljum hvert annað og daglegt líf hvers annars þvert á landamæri, til þess að okkur auðnist að finna nýjar lausnir.
Tungumál og loftslag eiga samleið
Skýrsla Norrænu ráðherranefndarinnar „Er sameiginlegur málskilningur á Norðurlöndum?“ birtir þekkingu og afstöðu 2000 norrænna ungmenna til tungumála og menningar. Skýrslan sýnir fram á að næstum öllum aðspurðum finnst auðvelt að skilja ensku og að hún hafi mikil áhrif á þeirra eigið tungumál. Um leið eru tvö af þremur sammála því að skilningur á skandinavískum tungumálum skipti miklu máli fyrir norræna samkennd.
Þótt loftslagsmál séu ungmennum á Norðurlöndum ofarlega í huga þá þýðir það ekki að tungumálaskilningur eða tækifæri til að stunda nám og vinnu í öðrum norrænum löndum skipti þau ekki máli. Tillaga nefndarinnar byggir á ályktun sem Norðurlandaráð æskunnar kynnti fyrr á þessu ári.
„Í Norðurlandaráði æskunnar viljum við gera meira en nú er gert! Við viljum að meiri áhersla verði lögð á þekkingu á norrænum tungumálum og menningu í skólum. Tungumálaskilningurinn skiptir sköpum ef við ætlum að byggja upp samheldið svæði sem bæði er eðlilegt og aðgengilegt íbúunum. Þetta skiptir líka máli fyrir okkur unga fólkið,“ segir Annika Lyytikäinen sem er fulltrúi Flokkahóps miðjumanna í Norðurlandaráði æskunnar.
Skólinn er leiðin fram á við
Nefndin hefur áhyggjur af því að tungumálaskilningi milli landanna hraki (sjá skýrsluna „Er sameiginlegur málskilningur á Norðurlöndum?) en skýrslan sýnir einnig fram á vilja og áhuga ungmenna á að bæta úr þessu.
„Markmið nefndarinnar er að snúa við þessari neikvæðu þróun en við erum sannfærð um að leggja verði áherslu á þekkingu á norrænum tungumálum og menningu til þess að þetta megi takast,“ segir Kjell-Arne Ottosson.
Annika Lyytikäinen frá Norðurlandaráði æskunnar tekur undir þetta:
„Það er án efa skilvirkast að fara gegnum skólana. Þar er hægt að sýna ungum nemendum fram á mikilvægi þess að skilja önnur tungumál til dæmis gegnum bækur, bíómyndir og sjónvarpsseríur eins og „Skam“ og „Brúna“. Tungumálið er límið í norrænni samkennd og í skólanum eru fólgin mikil tækifæri til þess að opna nýjar norrænar dyr fyrir forvitnum börnum og ungmennum.“