Nemendur búnir undir samfélag framtíðarinnar

08.02.19 | Fréttir
Hvaða hæfni þurfum við að búa yfir til þess að geta tekist á við samfélag framtíðarinnar? Enginn veit það með vissu en þá stöðu er hægt að læra að takast á við. Það kallast á ensku „Computationel thinking“. Norðurlöndin hafa sett sér það markmið að vera leiðandi á þessu sviði og eru þegar komin vel áleiðis. Þar gegnir Nordic CRAFT forystu.

„Þetta er skemmtilegt og maður getur átt samskipti við ungt fólk frá öðrum löndum. Maður lærir margt og þetta gagnast líka þeim sem leiðist svolítið í skólanum,“ segir Sanin sem er nemandi í Apelgårdskolan í Malmö.

Sanin tók þátt í ráðstefnunni Nordic@Bett í London í janúar þar sem Nordic CRAFT var kynnt. Hann tekur þátt í því að þróa hæfni framtíðarininnar með 500 kennurum og nemendum frá öllum Norðurlöndum. Nordic@Bett hefur starfað um árabil og þar er lögð áhersla á nýskapandi kennslu. Norrænu ríkin halda utan um starfsemina gegnum Utbildningsstyrelsen (FI), Undervisningsministeriet/Styrelsen for IT og Læring (DK), Skolverket (SE) og Senter for IKT i utdanningen (NO). Nordic@Bett er ætlað að vera vettvangur þar sem fagfólk í menntageiranum kemur saman og miðlar reynslu og þekkingu um samstarf, nýsköpun og tæknilæsi í grunnskólum.

„Við vonum að þátttakendurnir fari heim með nýjar hugmyndir um hvernig hægt er að vinna saman að nýsköpun, lausn vandamála og aðrar hliðar af hæfni 21. aldarinnar með áherslu á upplýsingatækni og tæknilæsi. Þetta á við þvert á fagsvið og landamæri,“ segir Pernille Dalgaard-Duus hjá Norrænu ráðherranefndinni.

Við vonum að þátttakendurnir fari heim með nýjar hugmyndir um hvernig hægt er að vinna saman að nýsköpun, lausn vandamála og aðrar hliðar af hæfni 21. aldarinnar með áherslu á upplýsingatækni og tæknilæsi. Þetta á við þvert á fagsvið og landamæri.

Pernille Dalgaard-Duus hjá Norrænu ráðherranefndinni

Í framtíðinni verður mikið lagt upp úr samstarfi sem er ólíkt því sem tíðkaðist þegar við vorum í skóla. Þá var meira lagt upp úr samkeppni. Þannig er það ekki lengur. Nú skiptir stafrænt samstarf máli.

Jennie Ingelsson

Stafrænt samstarf

Miklu skiptir fyrir norrænu ríkin hvernig þróa á skólann og kennsluna þannig að hún sé hvetjandi fyrir nemendur og kennara og að þau öðlist færni til þess að takast á við samfélag framtíðarinnar. Börn, unglingar og fullorðnir eiga ekki bara að nota miðla og tækni sem hluta af almennri menntun. Þau verða að þróa með sér hæfni til þess að hugsa og skapa með tækninni og nota hana sem hluta af lausnum við vandamálum hvunndagsins. Um leið skiptir máli að vera bæði forvitin og gagnrýnin á stafræna tækni.

Jennie Ingelsson, kennari við Apelgårdskolan í Malmö, telur að verkefnið muni þroska nemendur til þess að tileinka sér þekkingu á annan hátt en þeir hafa áður gert í skólanum.

„Í framtíðinni verður mikið lagt upp úr samstarfi sem er ólíkt því sem tíðkaðist þegar við vorum í skóla. Þá var meira lagt upp úr samkeppni. Þannig er það ekki lengur. Nú skiptir stafrænt samstarf máli,“ útskýrir Ingelsson.

Saman verðum við betri

Norrænu ríkin hafa ákveðið að Nordic CRAFT verði verkfæri þeirra í samstarfi þeirra um að verða leiðandi á þessu sviði. Á ráðstefnunni Nordic@Bett var „Computationel thinking“ í brennidepli. Gun Oker-Blom, forstöðumaður finnsku menntamálastofnuninnar og fulltrúi í stýrihópi Nordic CRAFT er sannfærð um að staða Norðurlandanna sé best þegar þau sameina krafta sína. 

„Markmiðið með Nordic CRAFT er að styðja norrænt samstarf. Stafræn þróun hefur verið svipuð í norrænu ríkjunum og samfélagið og skólarnir eru afar lík. Þegar við lítum á þróunina í hverju og einu norrænu ríki þá er hún sambærileg en takturinn aðeins mismunandi varðandi námskrár og þróun stefnumótunar í kennslu. Hér getum við stutt við og lært af hvert öðru,“ segir Gun Oker-Blom.