Norðurlandaráð: Auðvelda þarf ungmennum að stunda nám á Norðurlöndum!

20.09.17 | Fréttir
Studerende på et bibliotek
Ljósmyndari
Yadid Levy/Norden.org
Bæta þarf möguleika ungmenna á Norðurlöndum til að stunda nám í öðru norrænu landi en heimalandinu. Þetta er álit forsætisnefndar Norðurlandaráðs sem fundaði í Reykjavík þann 20. september. Vill forsætisnefndin meðal annars kanna möguleika á að koma á fót samnorrænni umsóknagátt sem nái til allra norrænna háskóla.
Í skýrslunni Higher Education in the Nordic Countries - evaluation of the Nordic agreement on admission to higher education, sem unnin var að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar, kemur fram að norræn ungmenni sækja frekar í nám í öðrum löndum en Norðurlöndunum. Ein af ástæðum þess kann að vera að erfitt er að nálgast upplýsingar um nám og námsmöguleika. Einnig skortir upplýsingar um kostina við nám á Norðurlöndum. Eins og er sækir norrænt námsfólk helst til Danmerkur, Svíþjóðar og annarra landa í Evrópu en mun færri sækjast eftir því að stunda nám í Noregi, Finnlandi eða á Íslandi. 

Samþættasta svæði í heimi

„Það yrði afar mikilvægt skref í þá átt að gera Norðurlönd að samþættasta svæði í heimi að ráða fram úr þessu,“ segir forseti Norðurlandaráðs, Britt Lundberg. Norðurlandaráð æskunnar vakti fyrst athygli á málinu og forseti ráðsins, Espen Krogh, fagnar því að það sé nú tekið upp í Norðurlandaráði. „Upplýsingar um námsmöguleika á Norðurlöndum eiga að vera eins aðgengilegar og framast er unnt og það á að vera einfalt að sækja um nám í öðru norrænu landi,“ undirstrikar hann. Norðurlandaráð vill að Norræna ráðherranefndin taki á því með heildstæðum hætti hvernig auka megi hreyfanleika námsfólks innan Norðurlanda. Í dag fjármagnar Norræna ráðherranefndin skiptiáætlunina Nordplus og norrænt meistaranám, sem gerir norrænu námsfólki kleift að stunda meistaranám í öðru norrænu landi. Forsætisnefndin telur að það ætti að vera auðveldara fyrir námsfólk að stunda allt háskólanám sitt í öðru norrænu landi.  „Sameiginleg umsóknagátt gæti verið góð hugmynd, en nú viljum við víðtækari framkvæmdaáætlun til að taka á ástandinu,“ segir Britt Lundberg.