Norðurlandaráð fordæmir innrás Rússlands í Úkraínu harðlega

02.03.22 | Fréttir
Den ryska invasionen av Ukraina 2022.
Photographer
Ty Oneil/Zuma/Ritzau Scanpix
Yfirlýsing frá forsætisnefnd Norðurlandaráðs vegna innrásar Rússlands í Úkraínu:

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs fordæmir harðlega hina grimmilegu, ólögmætu og tilefnislausu innrás Rússlands í Úkraínu. Rússland ber eitt ábyrgð á innrásinni sem gengur í berhögg við bæði þjóðarétt og alþjóðalög og er ógn við öryggi í Evrópu. Úkraína er friðsamlegt, fullvalda ríki og Rússlandi ber að virða friðhelgi þess.

Allsherjarárás á Úkraínu er ógn við frið og stöðugleika í Evrópu allri. Við hvetjum Rússland eindregið til að láta tafarlaust af öllum hernaðaraðgerðum og draga herlið sitt skilyrðislaust út úr Úkraínu.

Hugur okkar er hjá úkraínsku þjóðinni sem má þola hryllilegar og grimmilegar sprengjuárásir rússneskra hersveita. Þessar óréttlætanlegu árásir Rússlands, sem hafa í för með sér mannfall og tjón meðal almennra borgara og reka gríðarlegan fjölda fólks á flótta, sýna að stjórnvöld í Rússlandi bera enga virðingu fyrir mannslífum og rétti fólks til frelsis og lýðræðis.

Við styðjum baráttu úkraínsku þjóðarinnar af fullum hug og hvetjum öll lönd til þess að aðstoða Úkraínu með öllum mögulegum hætti. Við lýsum einnig yfir fullum stuðningi okkar við lýðræðislega kjörinn forseta Úkraínu og stöndum með öllum þeim Úkraínumönnum sem nú verja land sitt gegn árásaraðilum.

Norðurlandaráð var stofnað sem friðsamlegur samstarfsvettvangur í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar og á þeim 70 árum sem ráðið hefur verið starfrækt hefur það ávallt staðið með lýðræði, friði og mannréttindum.

Það er að öllu leyti í höndum Rússlands að binda enda á þetta stríð. Leggi Rússland niður vopn og dragi hersveitir sínar út úr Úkraínu lýkur stríðinu.

 

Norðurlandaráð er vettvangur opinbers samstarfs þingmanna á Norðurlöndum. Norðurlandaráð var stofnað árið 1952. Ráðið skipa 87 kjörnir fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð, auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.