Norðurlönd hvetja ESB til að breyta reglum um atvinnuleysisbætur

07.12.15 | Fréttir
Ráðherrar vinnumála á Norðurlöndum hafa lagt sameiginlega yfirlýsingu fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þar sem segir að ákaflega mikilvægt sé að breyta reglum um atvinnuleysisbætur þannig að þær endurspegli mun á launa- og lífskjörum í mismunandi ESB/EES-löndum. „Nauðsynlegt er að almenningur í löndum okkar upplifi að reglur ESB séu sanngjarnar og réttlátar og grafi ekki undan velferðarkerfum Norðurlanda,“ segir Jørn Neergaard Larsen, vinnumálaráðherra Danmerkur.

Á fundi Norrænu ráðherranefndarinnar um vinnumál sem haldinn var í Kaupmannahöfn ræddu ráðherrarnir atvinnuleysisbætur á Norðurlöndum og samspil þeirra við núgildandi ESB-reglur, einkum reglugerð (EB) 883/2004.

„Norðurlöndin eru velferðarsamfélög.  Við erum með þróuð almannatryggingakerfi og velferðargreiðslur og jafnframt virka vinnumarkaðsstefnu. Við erum öll sammála um að ESB-reglur megi ekki grafa undan velferðarkerfum Norðurlanda. Til dæmis viljum við að settar verði betri reglur um það þegar atvinnulausir einstaklingar fá atvinnuleysisbætur í öðru landi. Við viljum tryggja að þeir séu í virkri atvinnuleit og við viljum ekki lengja það tímabil sem þeir geta fengið atvinnuleysisbætur erlendis frá,“ segir Jørn Neergaard Larsen.

ESB-reglur mega ekki grafa undan velferðarkerfum Norðurlanda

Ráðherrarnir eru sammála um að reglugerð 883/2004 gegni mikilvægu hlutverki í því að stuðla að frjálsri för launþega á Norðurlöndum og í ESB sem heild. Aftur á móti er mikilvægt að reglugerðum Evrópusambandsins sé breytt í samræmi við þróun ESB og vinnumarkaða þess.

Aðildarlönd ESB/EES, sem nú eru orðin 32 talsins, eru með mismunandi almannatryggingakerfi og velferðargreiðslur og það er verulegur munur á launa- og lífskjörum í löndunum. Til þess að litið verði á reglur um atvinnuleysisbætur sem sanngjarnar og sjálfbærar til lengri tíma litið þurfa þær að endurspegla og laga sig að þessum mun. 

Einnig þarf að tryggja að almenn ákvæði komi ekki niður á öðrum stefnumálum ESB, til dæmis notkun virkra vinnumarkaðsaðgerða, en framkvæmdastjórn ESB hefur talað fyrir slíkum aðgerðum og þeim hefur verið beitt um árabil á Norðurlöndum.

 

Aðlaga þarf ESB-reglur

Ráðherrar vinnumála á Norðurlöndum eru sammála um að aðlaga þurfi ESB-löggjöf þegar þörf er á og að ekki eigi að innleiða nýjar reglur að tilefnislausu. Þeir telja að nútímavæða þurfi reglurnar þannig að þær endurspegli evrópskt samfélag nútímans. 

Í þessu ljósi telja þeir ákaflega mikilvægt að reglugerð 883 og samhæfingarreglurnar sem þar koma fram:

  • verði taldar sanngjarnar og réttlátar og endurspegli það að Evrópusambandið er misleitt og fer sífellt stækkandi,
  • styðji við og endurspegli notkun virkra vinnumarkaðsaðgerða sem í auknum mæli tengja bætur til einstaklinga við kröfur um virkni og tiltækileika,
  • taki mið af þróun ráðninga á vinnumarkaði og notkun upplýsinga- og samskiptatækni og Netsins við atvinnuleit þvert á landamæri þannig að óþarfi verði að lengja réttinn til að fá atvinnuleysisbætur erlendis í meira en þrjá mánuði,
  • leyfi aðildarlöndum að hafa betra eftirlit með því hvort einstaklingar sem taka með sér atvinnuleysisbætur til útlanda séu í raun í virkri atvinnuleit, og
  • verði ekki þess eðlis að hætta sé á að þær grafi undan háum velferðargreiðslum sem tekist hefur að innleiða í ýmsum aðildarlöndum.

Yfirlýsing ráðherranna:
Joint Nordic Declaration on Unemployment Benefits and Regulation (EC) No. 883/2004

Í bréfi til Marianne Thyssen, framvæmdastjóra vinnumála, félagsmála, hæfni og hreyfanleika vinnuafls hjá ESB, hvetja ráðherranir framkvæmdastjórnina til að taka tillit til þessara athugasemda við undirbúning aðgerðapakka á sviði hreyfanleika vinnuafls (Employment Mobility Packag).

„Ég er ánægður með að Norrænu ráðherranefndin um vinnumál hafi samþykkt sameiginlega yfirlýsingu. Ég tel að yfirlýsingin sé vitnisburður um gildi þess að ræða sameiginleg hagsmunamál á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar,“ segir Jørn Neergaard Larsen, ráðherra vinnumála í Danmörku, að lokum.

Vöxtur, velferð og gildi eru lykilorðin í formennskutíð Dana í Norrænu ráðherranefndinni 2015.

Nánari upplýsingar:

Formennska Dana í Norrænu ráðherranefndinni